Ísland lauk leik í undankeppni EM með sigri á Moldóvu í kvöld, 2-1. Íslenska liðið spilaði ágætlega og átti flotta samspilskafla á köflum, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það var ljóst fyrir leikinn að Ísland færi í umspil um laust sæti á EM en það verður spilað í mars næstkomandi.
Moldóvar byrjuðu leikinn af krafti og létu finna vel fyrir sér en íslenska liðinu tókst að verjast áhlaupi þeirra vel. Birkir Bjarnason kom Íslandi yfir í fyrri hálfleik eftir flott spil. Það var hinn ungi Mikael Neville Anderson sem lagði upp markið. Ísland hefði vel getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik og var Birkir sá leikmaður sem komst næst því. Viðar Örn Kjartansson, sem kom inn á eftir meiðsli Kolbeins, átti einnig fínt færi.
Moldóvar mættu grimmir til leiks í seinni hálfleik og uppskáru jöfnunarmark við mikinn fögnuð áhorfenda á Zimbru Stadium í Kísinev. Fögnuðurinn var þó ekki langlífur því Gylfi Þór Sigurðsson kom okkar mönnum aftur yfir. Gylfi fékk svo kærkomið tækifæri til að bæta við marki en brenndi af vítaspyrnu 12. mínútum fyrir leikslok. Lokatölur 2-1 fyrir Ísland og við endum riðilinn með 19 stig.
Plús:
Birkir Bjarnason hefur átt magnaða haust með landsliðinu, hefur svarað fyrir gagnrýnina á réttan hátt. Hans besta staða er á miðri miðjunni, það hefur sannast í haust.
Mikilvægt að enda undankeppnina á sigri. Þó andstæðingurinn hafi ekki verið sá sterkasti er alltaf mikilvægt að vinna og þá sérstaklega á útivelli. 19 stig í riðlinum er í sjálfu sér góð uppskera þegar allt kemur til alls.
Það var gaman að sjá Erik Hamrén gefa Mikael Andersson tækifæri í byrjunarliðinu. Það er mikilvægt fyrir unga leikmenn að fá tækifæri í alvöru leikjum og gaman að sjá þegar þeir grípa tækifærið. Mikael er greinilega í miklum metum hjá Hamrén og hann gerði virkilega vel þegar hann lagði upp markið sem Birkir skoraði. Því miður þurfti hann að fara meiddur af velli í byrjun seinni hálfleiks.
Ísland náði mörgum flottum samspilsköflum í leiknum sem veit á gott. Einnar snertingar fótbolti sem kom okkur oft í fína stöðu og skapaði færi.
Mínus:
Það var grátlegt að horfa á Kolbein Sigþórsson fara meiddan af velli, þetta magnaða endurkoma hans í ár hefur fengið verðskuldað lofað. Ef það þekkir einhver að stíga upp eftir að hafa verið kýldur í jörðina, þá er það Kolbeinn.
Það er sorgleg staðreynd fyrir Dag B Eggertsson, borgarstjóra og ríkisstjórn þessa lands að fátækasta þjóð Evrópu, eigi betri heimavöll en íslensku landsliðin í fótbolta. Zimbru völlurinn, tekur 10 þúsund áhorfendur og væri mikil búbót fyrir íslenska liðið, að eiga svona völl. Það er skammarlegt hvernig Dagur B og ríkisstjórnin hafa dregið lappirnar. Borgin á Laugardalsvöll og ríkið þarf að koma með fjármuni til að hefjast handa, Guðni Bergsson og félagar í Laugardalnum þurfa að fara berja í borð, svo eitthvað fari að gerast.
Það er í raun frekar slæm tíðindi fyrir landsliðið að liðið getur ekki verið án Kára Árnasonar. Þessi 37 ára gamli leikmaður sem spilar í Pepsi Max-deildinni, spilar alltaf vel og þeir sem koma inn geta ekki fyllt hans skarð.
Það eru vond tíðindi fyrir íslenska landsliðið, hversu kaldur Gylfi Þór Sigurðsson er á vítapunktinum. Hann er stjarna liðsins en þarf Erik Hamren að skipta um skyttu?
Það var svo sem vitað fyrir leikinn að Ísland myndi fara í umspilið. Eftir að hafa komist á tvö stórmót í röð er það engu að síður svekkjandi niðurstaða. Góðu fréttirnar eru að við eigum enn ágætis möguleika á að komast á EM.