fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Matur

Daníel keppir í Söngvakeppninni: Í fjarbúð með nafna sínum – Ólst upp hjá sterkri móður og 7 systrum – „Ég ber mikla virðingu fyrir konum“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Mánudaginn 4. febrúar 2019 08:00

Daníel Óliver.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Undirbúningurinn er búinn að ganga vonum framar. Ég er heppinn í ár því síðast þegar ég keppti var ég með streptókokka. Það var svolítið erfitt. Núna er ég frískur og góður,“ segir tónlistarmaðurinn Daníel Óliver. Daníel tekur þátt í fyrri undankeppninni í Söngvakeppninni þann 9. febrúar með stuðlagið Samt ekki.

„Allar æfingar eru búnar að ganga rosalega vel og ég er ótrúlega spenntur. Ég er kominn með tvo dansara. Annar þeirra dansar með Íslenska dansflokknum og hinn dansar í söngleikjum í Bretlandi. Þeir munu halda uppi stuðinu meira en ég, þó ég muni dansa pínulítið. Þeir verða á fullu allan tímann, enda er þetta rosalegt partílag. Ég hlakka mest til að sjá hvernig fólk bregst við stuðinu,“ segir Daníel, sem ætlar svo sannarlega ekki að mæta veikur á sviðið eins og síðast þegar hann tók þátt í Söngvakeppninni árið 2015 með lagið Fyrir alla.

„Ég er að taka vítamín og er duglegur að nota spritt alls staðar sem ég kem. Það er búið að virka vel hingað til. Svo náttúrulega forðast ég öll barnaafmæli og fjölmenna staði,“ segir hann og hlær.

https://www.instagram.com/p/BrC606EAj0E/

Búinn að grennast mikið á ketó

Daníel segist vera að komast í betra form og þakkar ketó-mataræðinu fyrir það, en hann hefur borðað eftir mataræðinu síðan í október í fyrra.

„Þetta er það ótrúlegasta sem ég hef upplifað. Þetta er ótrúlegt mataræði. Ég hef svo mikla orku og blóðsykurinn er jafn yfir daginn þannig að ég upplifi ekkert blóðsykurfall, engar skap- eða hungursveiflur. Ég finn þegar er kominn tími til að borða og fæ ekki einhverja klikkaða þrá í mat. Mér líður ótrúlega vel. Ég get ekki lofsamað þetta mataræði nógu mikið. Ég er búinn að grennast slatta á ketó og ég er minna stressaður að fara á svið,“ segir Daníel og bætir við að hann fasti einnig.

„Ég borða fyrstu máltíðina um klukkan 15 eða 16 og fæ mér siðan aðra máltíð um klukkan 20. Síðan fasta ég þar til daginn eftir. Á ketó er það ekkert mál. Líkaminn gerir ekki greinarmun á fitunni sem þú ert að borða og fitunni á líkamanum og er ekki að biðja um neitt fyrr en þig vantar ekkert í kroppinn. Ég finn ekki til hungurs og skipulegg hvenær og hvernig ég borða.“

Rosalegur pítsukall

Daníel er mikill matgæðingur og er sérstaklega sólginn í ítalskan mat. Ítalskur matur er stútfullur af kolvetnum, eitthvað sem er á bannlista á ketó-mataræðinu, en söngvarinn hefur náð að finna leiðir til að njóta sinna uppáhalds rétta.

„Ég elska lasagna og heimagerðar kjötbollur í sósu. Ég er líka rosalegur pítsukall. Til dæmis þegar ég geri lasagna nota ég oft góðan og harðan ost í staðinn fyrir plöturnar. Eða ég nota kúrbít eða bý til mitt eigið pasta úr möndlumjöli eða öðru mjöli. Það er auðvelt að finna leiðir til að gera hvaða mat sem er,“ segir matgæðingurinn. „Ég er mjög duglegur að elda skemmtilegan mat á ketó. Ég nota möndlumjöl, sesammjöl, kókosmjöl og alls konar. Ég baka og elda og set afraksturinn inn á Instagram. Ég hef fengið slatta af fylgjendum út á það. Auðvitað blanda ég svo við einni og einni vel valinni sjálfu,“ segir hann og hlær.

https://www.instagram.com/p/BqVa0_wgai8/

Getur ekki borðað þorramat

Daníel finnst ekkert sérstaklega erfitt að sleppa nammi á ketó, en sykur er bannaður í mataræðinu.

„Ég er rosalegur lakkrískarl og fæ mér oft sykurlaust lakkrísnammi eins og Läkerol. Það virkar bara fínt fyrir mig. Ég sakna ekkert súkkulaðis eða annarra sætinda, enda er ég miklu meira matargat. Þess vegna virkar þetta svo vel fyrir mig.“

Það er þó eitt sem Daníel getur alls ekki borðað.

„Ég get ekki borðað þorramat. Ég er ekki einn af þeim, því miður. Augu og innyfli eru ekki fyrir mig. Þegar mamma eldar svið þá tekur hún Kill Bill á þetta og plokkar augun úr og setur þau upp í sig. Það er bara eins og að horfa á hryllingsmynd. Mér finnst samt frábært að við söfnumst enn saman út af þessum hefðum, sem eru skemmtilegar og fallegar.“

Í bissness með mömmu

Daníel bjó í Stokkhólmi í sjö ár en flutti heim til Íslands síðasta sumar til að opna veitingastaðinn Súpufélagið í Vík í Mýrdal ásamt móður sinni. Daníel er því ekki bara áhugamatgæðingur heldur atvinnumaður.

https://www.instagram.com/p/BqbYO2rAtQ1/

„Okkur mömmu langaði báðum að prófa eitthvað nýtt og vorum í smá lífskrísu. Sumarið 2017 fengum við gamlan, rússneskan hergám og gerðum hann upp sem eldhús. Þar seldum við súpur til að taka með út um lúgu. Það gekk svo ótrúlega vel að okkur var boðið að opna þetta í nýju húsnæði í Vík síðasta sumar. Við eiginlega stukkum á það strax,“ segir tónlistarmaðurinn. Hann og móðir hans búa bæði í Vík og í Hafnarfirði og skiptast á að standa vaktina í Súpufélaginu.

„Ég bý til alla réttina á matseðlinum og við skiptumst á að elda. Við erum líka með frábært starfsfólk þannig að þetta er voðalegt stuð,“ segir Daníel. En hvernig er að vera í atvinnurekstri með móður sinni? „Ég bjó svo lengi úti í Svíþjóð að ég var farinn að sakna hennar og fjölskyldunnar ótrúlega mikið. Ég kom heim í þeim tilgangi að eyða meiri tíma með henni. Mér finnst geggjað að fá tækifæri til að gera þetta með mömmu. Systir mín er líka að vinna með okkur í starfsmannamálum og bókhaldi þannig að við erum alltaf saman fjölskyldan.“

Súpufélagið á Vík.

„Daníel og systurnar sjö“

Daníel á hvorki meira né minna en sjö systur og segir fjölskylduna alltaf hafa verið nána.

„Við erum oft kölluð Daníel og systurnar sjö,“ segir Daníel, hlær og bætir við að það hafi verið dásamlegt að alast upp með svo mörgum konum í lífinu sínu. „Ég held að það hafi gert það að verkum að ég er sjálfstæður. Ég ber mikla virðingu fyrir konum. Ég held að það hafi gert mig að betri manneskju ef eitthvað er. Að alast upp með sterkum konum og hjá sterkri móður gerir mann víðsýnan og sterkan held ég. Ég vona það allavega mín vegna og þeirra. Það er gott að alast upp hjá konum og það er vel hugsað um mann. Ég lærði að elda, þvo þvott og hugsa um mig sjálfur. Þær eru allar mjög sjálfstæðar og kenndu mér að vera það líka.“

„Mín saga er mjög góð“

Daníel er „þrælsamkynhneigður“ að eigin sögn og kom út úr skápnum fyrir meira en áratug.

„Mín saga er mjög góð. Mér var vel tekið og ég hef aldrei lent í neinu veseni. Það hafa ekki allir þá sögu að segja, því miður. Ég tel mig mjög heppinn,“ segir hann og bætir við að þjóðfélagið sé mun opnari nú en fyrir áratug þegar kemur að hinsegin fólki. „Áður fyrr þurfti sérstaka klúbba til að samkynhneigðir gætu hisst án þess að verða fyrir áreiti. Í dag er bara einn „gay“ klúbbur á Íslandi og ég held að það sé út af því að þetta er ekkert tabú lengur. Við þurfum ekki lengur að hittast á einhverjum sérstökum stöðum og það er mjög jákvætt.“

https://www.instagram.com/p/BryZm8VAGJQ/

Í fjarbúð með Daniel

Eins og áður segir var Daníel búsettur í Svíþjóð í sjö ár, en þegar hann flutti heim til Íslands varð kærastinn hans, Daniel Nyback, eftir í Svíþjóð. Söngvarinn segir ekkert mál að vera í fjarbúð.

„Það er ekkert mál þegar maður er búinn að vera saman svona lengi,“ segir hann, en þeir Daníelarnir eru búnir að vera par í sjö ár. „Við tölum saman daglega og hittumst mánaðarlega. Svo kemur hann á Söngvakeppnina. Ég er mjög spenntur að fá hann,“ bætir hann við. Hann útilokar ekki að flytja aftur til Svíþjóðar. „Ég veit það ekki alveg. Það eru búnar að vera pælingar að opna Súpufélagið í Svíþjóð. En ég ætla bara að leyfa hlutunum að koma í ljós af sjálfu sér.“

Hættur að rembast við að verða poppstjarna

Söngvakeppnin á hug Daníels allan næstu daga og eru stífar æfingar fram að stóra kvöldinu þann 9. febrúar þegar kemur í ljós hvort Daníel kemst í sjálf úrslitin þar sem keppt er um sæti í Eurovision-keppninni í Ísrael. Daníel sendi tvö lög inn í keppnina og bjóst alls ekki við að stuðlagið kæmist áfram.

„Ég samdi ballöðu haustið 2017 sem að mér fannst eiga heima í Eurovision. Síðan var það eiginlega félagi minn í Svíþjóð sem ég geri mikið tónlist með sem vildi senda Samt ekki inn því honum fannst það frábært lag og að það ætti vel heima í keppninni. Það vildi svo þannig til að Samt ekki var valið. Ég er bara mjög ánægður með það núna, þó það hafi verið áfall í fyrstu. Eitt sem er gaman við partílag er að það eykur skemmtanagildið. Ef að ég get verið einn af þeim sem veldur því að fólk skemmtir sér vel og meira þá er ég mjög ánægður með það,“ segir söngvarinn knái. En hvað ber framtíðin í skauti sér þegar að Eurovision-ævintýrið er búið?

„Ég er ekkert endilega að hugsa mér að vinna í tónlist í fullu starfi. Ég held að ég reyni að taka því sem gefst. Halda áfram að búa til mína tónlist, mín lög fyrir mig og þá sem vilja hlusta. Ég ætla ekkert að vera að rembast eins og rjúpan við staurinn að verða poppstjarna. Þeir dagar eru liðnir. Ég er búinn að vera duglegur að gera hluti og reyna að gera eins mikið og ég get. Stundum hef ég haft nóg að gera. Stundum minna. Ég er ekkert að leitast eftir að tónlist verði aðalvinnan mín en ég mun aldrei geta hætt að búa til tónlist. Það er algjörlega ástríðan mín – það og góður matur. Nú get ég gert þetta saman – verið með veitingastað og búið til tónlist. Ég er mjög þakklátur að geta unnið við tvo hluti sem ég elska.“

https://www.instagram.com/p/Bq0C03EgC-L/

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa