fbpx
Þriðjudagur 19.febrúar 2019
Fréttir

Áhrif HM á samfélagið: Skólplagnir ættu að halda

Kristinn H. Guðnason og Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 16. júní 2018 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu er skollið á af fullum þunga. Hvort sem þið elskið leikinn eða fyrirlítið hann þá er alveg ljóst að keppnin mun hafa margvíslega áhrif á samfélagið. Blaðamenn DV rifu upp símann og hringdu í allar áttir til þess að reyna að gera sér betur grein fyrir þessum áhrifum. Hér eru helstu niðurstöður.

Íslendingar fyrirhyggjusamir: „Engar athafnir bókaðar á laugardaginn“

Fregnir af aflýstum brúðkaupum í Dómkirkjunni vöktu forvitni blaðamanna um hvort hópafpantanir hafi átt sér stað í kirkjum landsins. Svo virðist ekki vera samkvæmt óvísindalegri rannsókn blaðsins. Íslendingar virðast einfaldlega hafa verið fyrirhyggjusamir hvað þetta varðar. Séra Hildur Eir Bolladóttir tjáði DV að engar athafnir hafi verið skipulagðar í Akureyrarkirkju á laugardaginn enda Norðlendingar framsýnir með eindæmum. Engin prestur athafnar í kirkjunni og Hildur ætlar því að sjálfsögðu að fylgjast með knattspyrnunni.

„Ég bauð þeim sem voru með mér í ræktinni í morguntíma á laugardaginn ef einhverjir vildu og lofaði þeim langri og góðri predikun. Fólk gat valið tíma og ég skyldi vera með mjög guðfræðilega og djúpa ræðu. En það var bara hlegið. Það er allt sett í biðstöðu og það er fallegt. Við verðum ein stór fjölskylda á laugardaginn.“

Sömu sögu er að segja í Laugarneskirkju þar sem séra Davíð Þór Jónsson þjónar sínum söfnuði.

„Hún kom mér svolítið á óvart fréttin um að athöfnum í Dómkirkjunni hafi verið frestað. Hér í Laugarneskirkju voru engar athafnir bókaðar á laugardaginn. Þannig að þeir sem vildu gifta sig í Laugarneskirkju höfðu fyrirhyggju til þess að athuga hvenær leikurinn væri. Sóknarpresturinn og félagsstarfið er komið í sumarfrí í júnímánuði en við verðum með messu sunnudaginn 17. júní.“

„Pípurnar munu halda en í hálfleik og eftir leikinn gæti komið gott skot“

Hvað gerist þegar blásið verður til hálfleiks í leikjum Íslands og spenntir íþróttaunnendur létta af sér samtímis um allt land. „Pípurnar munu halda en í hálfleik og eftir leikinn gæti komið gott skot,“ segir Ólöf Snæhólm hjá Veitum ohf., sem sér um fráveitukerfi fyrir um helming landsmanna, í samtali við DV.

„Við munum auðvitað fylgjast vel með notkuninni þennan dag og skoða hvort og hvernig hún er öðruvísi en á venjulegum laugardögum. Við búumst við misjöfnu rennsli og ekki miklu á meðan leiknum sjálfum stendur.“

Mikið hefur verið rætt um álag á fráveitukerfi þegar á stórum íþróttaviðburðum stendur, til dæmis í Bandaríkjunum meðan á Super Bowl-leiknum stendur. Ólíkt amerískum ruðningi þá eru hins vegar engin auglýsingahlé meðan á knattspyrnuleik stendur og því algengt að þeir sem geta ekki slitið sig frá skjánum vegna spennu þurfi að bíða þangað til í hálfleik eða eftir leik til að sinna grunnþörfunum.

„Þetta hefur ekki skapað vandamál hingað til og kerfið okkar mun ráða við þetta. Við mældum rennslið þegar Evrópumótið stóð yfir fyrir tveimur árum. Þá var hægt að lesa vel hegðun þeirra sem búa á veitusvæði Veitna út úr tölunum, spennustigið í leikjunum og annað slíkt. Við munum ábyggilega senda frá okkur einhver gögn á sunnudaginn, línurit og fleira, sem sýnir rennslið.“

Nýbakaðir foreldrar hafa annað að gera

Blaðamenn DV voru sammála um að ef þeir væru nýbakaðir feður eða mæður þá hefði fæðingarorlofið verið skipulagt með HM til hliðsjónar. Fáir virðast hafa verið á þeim buxum.

„Nei, við höfum ekki orðið vör við neina aukningu,“ segir starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs í samtali við DV. Vitað er að margir hafa skipulagt sumarfríin sín í takt við HM en það á greinilega ekki við um íslenska foreldra.

Á skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga hafði spurningin um HM þegar verið viðruð þegar DV hafði samband en þar hafði enginn tekið eftir því að foreldrar væru frekar að fara í fæðingarorlof í kringum HM en í venjulegum júnímánuði. Nýbakaðir foreldrar hafa líklegast nóg annað að gera en að fylgjast með boltanum.

Notar tækifærið til að leyfa sér

Færri komust til Rússlands en vildu og það virðist hafa þau áhrif að margir nota tækifærið og kaupa sér gott sjónvarp. „Tilfinning okkar er að fólk sé að koma sér upp góðum græjum og góðu sæti heima í stofu,“ segir Auður Jónsdóttir, markaðsfulltrúi Elko, í samtali við DV. Er þá sérstaklega um að ræða stór sjónvörp, 55 til 65 tomma tæki.

Elko býður einnig upp á afslátt á heimabíóum þegar sjónvörp eru keypt og er verslunin með sérstakt horn þar sem farið er yfir stillingar á tækjunum til að láta fótboltann njóta sín sem best, þjónusta sem sjónvarpseigendur eru duglegir að nýta sér. „Við höfum alltaf fundið fyrir svona toppum í kringum stóra viðburði. Þetta hefur alltaf verið í kringum Eurovision og auðvitað EM. Þetta er það sem tíðkast, fólk notar tækifærið til að leyfa sér. Það kaupir kannski ekki miða á HM en splæsir í nýtt sjónvarp.“

Stærra en Eurovision

Eitthvað þarf að borða með leiknum og því eru veitingamenn við öllu búnir.

Anna Fríða Gísladóttir, markaðsstjóri Domino’s, býst við góðri stemningu og mikilli aðsókn á laugardaginn þegar Ísland og Argentína mætast.

„Við viljum meina að pítsa og fótbolti passi jafn vel saman og salt og pipar gera. Við erum vel undirbúin og með allt okkar besta fólk á gólfi. Þetta verður stærra en Eurovision.“

Að sögn Önnu verður ýmislegt gert á staðnum í tilefni af mótinu.

„Við sýnum leikina á sjónvarpsskjá á öllum stöðum þannig að viðskiptavinir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að missa af neinu. Að sjálfsögðu verðum við með HM-tilboð, annars værum við nú ekki Domino’s. Hérna innan fyrirtækisins verðum við svo með tippkeppni fyrir starfsfólk. Það er mikil spenna hér á bæ og við vonum að allt gangi vel, bæði hjá okkur og Íslandi.“

Nennir enginn að elda á meðan HM er í gangi?

„Það held ég ekki og vona ekki,“ segir Anna kímin. „Pítsa er matur fyrir fólk sem kemur saman og deilir á milli sín, hvort sem það eru vinir eða fjölskylda. Þetta ætti allt að smella.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

Engin niðurstaða og harðar ásakanir: „Þrælavinna“ – „nauðungarvinna“ – „atvinnuofbeldi“ – „glæpamenn“

Engin niðurstaða og harðar ásakanir: „Þrælavinna“ – „nauðungarvinna“ – „atvinnuofbeldi“ – „glæpamenn“
Í gær

Óíslensk hegðun

Óíslensk hegðun
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður áreitt á veitingastað þar sem hún sat með 14 ára syni sínum: „Framkoma þeirra var viðurstyggileg“

Sigríður áreitt á veitingastað þar sem hún sat með 14 ára syni sínum: „Framkoma þeirra var viðurstyggileg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dottaði undir stýri og fór út af

Dottaði undir stýri og fór út af
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Myndband: Bandóðir bílstjórar börðust við Bauhaus – Ástæðan var ótrúleg – „Svo rauk minni gaurinn bara út“

Myndband: Bandóðir bílstjórar börðust við Bauhaus – Ástæðan var ótrúleg – „Svo rauk minni gaurinn bara út“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þórlaug var í hættu en varpar nýju ljósi á harmleikinn á Skólavegi: „Verulega brugðið þegar blóð fór að leka úr augum hans“

Þórlaug var í hættu en varpar nýju ljósi á harmleikinn á Skólavegi: „Verulega brugðið þegar blóð fór að leka úr augum hans“