fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Móðir stúlkunnar fékk áfall þegar hún sá áverkana

Auður Ösp
Fimmtudaginn 22. mars 2018 16:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir stúlkunnar sem varð fyrir líkamsárás af hálfu dagmóður fékk áfall þegar hún sá áverkana á líkama dóttur sinnar. Héraðsdómur mat það svo að um sérstaklega hættulega líkamsárás hefði verið að ræða. Dagmóðirin hlaut níu mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur síðastliðinn þriðjudag.

Atvikið átti sér stað í íbúð dagmóðurinnar í október 2016 en umræddan dag voru fjögur börn í hennar vörslu. Umrædd kona hafði þá starfað sem dagmóðir í átta ár.

Í ákæru á hendur konunni kemur fram að hún hafi veist með ofbeldi að litlu stúlkunni með þeim afleiðingum að stúlkan hlaut mikla maráverka og punktblæðingar á hálsi, mar og hrufl hægra megin á andliti, punktblæðingar á kinnbeinum hægra megin, undir hægra auga og framan við hægra eyra, yfirborðssprungu á húð í hægri augnkróki, mar á vinstri kinn og vinstri eyrnasnepli og punktblæðingu aftan við vinstra eyra.

Sagði stúlkuna hafa dottið úr barnastól

Um hádegisbil umræddan dag barst tilkynning til lögreglu um að slys hefði orðið á heimili konunnar þar sem ungt barn hefði fallið úr barnastól niður á gólf.

Dagmóðirin tjáði lögreglu að hún hefði ekki séð þegar stúlkan féll úr stólnum. Sagðist hún hafa komið að stúlkunni þar sem hún lá í grúfu á gólfinu og grét mikið. Hún sagðist hafa tekið stúlkuna upp og huggað. Kvaðst hún síðan hafa tekið eftir áverkum á hálsi barnsins og kallað eftir aðstoð. Þá sagðist hún hafa reynt að kæla háls stúlkunnar með kælipoka.

Stúlkan var í kjölfarið flutt á Bráðamóttöku barna við Hringbraut en um þrjúleytið þennan dag bárust upplýsingar frá lækni á spítalanum til lögreglu um að áverkar á stúlkunni væru talsverðir og ekki í samræmi við frásögn dagmóðurinnar.

Áverkar stúlkunnar voru myndaðir af lögreglu á Barnaspítala Hringsins en fram kemur í skýrslu að hún hafi verið með greinilega áverka á hálsi beggja vegna og að aftan eins og eftir ól eða eitthvað þess háttar. Þá hafi hún verið marin, bólgin og með roða á báðum kinnum.

Lögregla leitaði til réttarmeinafræðings við rannsókn málsins. Fram kemur í áliti hans að fall eins og það sem dagmóðirin hafði lýst myndi yfirleitt einhliða áverkamynstur. Litla stúlkan sýndi áverka á mörgum svæðum líkamans. Áverkana var aðallega að finna á lítt útistandandi svæðum á andliti og hálsi samanborið við þá hluta líkamans sem almennt verða fyrir falli, svo sem enni, augabrúnir, nef og kinnar. Taldi réttarmeinafræðingurinn að þessi mynstur og dreifing áverkanna mældu einnig gegn því að um einfalt fall hefði verið að ræða.

Þá taldi réttarmeinafræðingurinn að ekki væri hægt að útskýra áverkana á andliti og hálsi stúlkunnar með einu atviki, sérstaklega ekki einu falli með höfuðið á undan eins og dagmóðirin hafði lýst. Skoðun og álit réttarmeinafræðingsins hélst óbreytt eftir að hann hafði horft á sviðsetta útgáfu af atvikinu þar sem dagmóðirin sýndi atburðarásina og studdist við litla gínu.

Annar réttarmeinafræðingur var dómkvaddur sem matsmaður til að leggja mat á áverka stúlkunnar og hvort hægt væri að útiloka að þeir væru tilkomnir með þeim hætti sem dagmóðirin bar um, sérstaklega hvort áverkarnir gætu skýrst af því að stúlkan hefði dottið á eða utan í barnastól. Var það hans mat að áverkarnir væri einkum á þeim hlutum höfuðsins sem eru ekki útstæðir og áverkar á vöngum séu ekki dæmigerðir fyrir fall. Benti hann á að þessi staðsetning áverkanna sé algengari þegar um sé að ræða ofbeldi gegn börnum. Benti hann einnig á þá staðreynd að ekki væru fyrir hendi neinir fylgiáverkar á bol eða útlimum barnsins. Staðsetning áverkanna ein og sér sagði hann valda grunsemdum um að stúlkan hefði orðið fyrir ofbeldi.

„Því beri að ganga út frá því að sterkur grunur sé fyrir hendi um að ekki hafi verið um slys að ræða heldur ofbeldisverknað.“ segir í dómi.

Sagði stúlkuna hafa verið litla í sér allan daginn

Dagmóðirin neitaði sök fyrir dómi og kvaðst ekki hafa veitt stúlkunni neina áverka. Ítrekaði hún að stúlkan hefði dottið úr Tripp Trapp stól og kvaðst ekki geta skýrt áverkana á  henni með öðrum hætti en að hún hefði fengið þá við fallið.

Þá benti hún á að stúlkan og önnur stúlka sem hefði setið við hliðina á henni hefðu verið að rífa smekkinn hvor af annarri. Þá taldi hún mögulegt að smekkurinn hefði flækst í einhverju við fallið. Þá sagði hún að stúlkan  hefði oft náð að losa sig úr barnastólnum, en ólíklegt væri að hún hefði getað vafið bandinu um sig.

Þá sagðist hún ekki hafa séð neina áverka á stúlkunni við komu um morguninn. Enginn annar hefði verið heima hjá henni þennan morgun, hún hefði verið ein með fjögur ung börn. Þá sagðist hún hafa átt góð samskipti við foreldra stúlkunnar, stúlkan hefði verið líflegt og skemmtilegt barn og virst vera ánægð hjá henni. Hún hefði verið á þeim aldri sem börn meiðast oft.

Foreldrar stúlkunnar báru vitni fyrir dómi. Móðir stúlkunnar sagði að þau hefðu verið á spítalanum fram að kvöldmat og stúlkan hefði verið lítil í sér allan daginn. Hún sagðist hafa sent dagmóðurinni skilaboð þegar þau hefðu komið heim um að allt væri í lagi og fengið það svar að „henni væri létt.“ Þau hefðu ekki viljað að stúlkan færi aftur til dagmóðurinnar og haft hana heima þar til hún hefði fengið pláss í leikskóla viku síðar.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekkert bendi til þess að stúlkan hafi orðið fyrir einhvers konar falli eða öðru slysi fyrir komuna til dagmóðurinnar þennan dag og að hin ákærða hafi ekki orðið vör við neitt slíkt áður en stúlkan féll úr barnastólnum. Það sé því ljóst að stúlkan hlaut áverkana á meðan hún var í umsjá dagmóðurinnar Þá kemur fram að dagmóðirin sé ein til frásagnar um það sem gerðist á heimilinu þennan dag. Þá leit dómurinn til samdóma álits tveggja sjálfstæðra réttarmeinafræðinga, sem og læknis sem skoðaði stúlkuna á bráðamóttöku: að áverkar á barninu  hefðu ekki getað orsakast af falli.

„Þar sem að ekkert annað hefur komið fram sem mögulega getur skýrt áverka brotaþola verður að hafna framburði ákærðu um að þeir hafi hlotist af slysförum,“ segir meðal annars í niðurstöðu.Þá kemur fram „að árás fullorðinnar manneskju á höfuð og háls svo ungs barns, sem getur ekki varið sig á neinn hátt, með beitingu slíks afls sem hér hefur verið lýst, er að mati dómsins sérstaklega hættuleg líkamsárás.“  Brot konunnar er sagt mjög alvarlegt og geti haft töluverðar afleiðingar. Það hafi beinst að ungu barni sem henni hafði verið treyst fyrir í starfi sínu sem dagforeldri.

Konan var sem fyrr segir dæmd í 9 mánaða fangelsi sem er skilorðsbundið til tveggja ára auk þess sem henni er gert að greiða stúlkunni 500 þúsund krónur í miskabætur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki