Gunnar Smári vill Einar úr Kastljósinu – Helgi Seljan svarar fullum hálsi: „Aumt og taugaveiklað“

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins og fyrrverandi ritstjóri, vandar Einari Þorsteinssyni, fréttamanni á RÚV, ekki kveðjunnar á Facebook. Gunnar Smári gagnrýnir að Einar hafi rætt við Sigríði Andersen í Kastljósi í gær en Gunnar Smári telur Einar vanhæfan þar sem hann hafi eitt sinn verið formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Helgi Selja kemur kollega sínum Einari til varnar og segir þetta aumt og taugaveiklað hjá Gunnari Smára.

Segir þetta ótækt

Gunnar Smári deildi þessari gagnrýni sinni innan Facebook-hópsins Fjölmiðlarnördar: „Nú er Einar Þorsteinsson mættur í Kastljós. Hvers vegna? Hvers vegna er fyrrum formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, látinn ræða við Sigríði Andersen, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í aðdraganda kosninga. Eru engar innanhúsreglur á RÚV sem geta verndað trúverðugleika fjölmiðilsins?“

Hann bætir svo við og segir að fyrrverandi ungliðar Sjálfstæðisflokksins hafi verið áberandi í kosningasjónvarpi RÚV fyrir síðustu kosningar. „Fyrir síðustu kosningar voru fyrrum ungliðar xD nánast í öllum umræðuþáttum. Það er ótækt. Með fullri virðingu fyrir minnihlutahópum,“ segir Gunnar Smári og biður fólk um að bera saman viðtöl RÚV við Smára McCarthy pírata annars vegar og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hins vegar.

Er að leysa Baldvin af

Einar svarar Gunnari Smára síðar í þræðinum og segist vera að leysa Baldvin Þór Bergsson af í Kastljósinu þar sem hann eignaðist stúlku á dögunum. Hann segir að hver og einn verði að leggja mat á sín störf. „Það er rétt að ég var formaður Týs í eitt ár minnir mig eftir menntaskóla. Fyrir nærri 20 árum. Það var skemmtilegt að kynnast starfi stjórnmálaflokks á þann hátt og ég sé ekki eftir því. Ég sagði mig hinsvegar úr flokknum þegar ég fékk áhuga á fréttum og fór að vinna á fréttastof