fbpx
Fréttir

Gunnar Smári vill Einar úr Kastljósinu – Helgi Seljan svarar fullum hálsi: „Aumt og taugaveiklað“

Hjálmar Friðriksson
Miðvikudaginn 27. september 2017 14:00

Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins og fyrrverandi ritstjóri, vandar Einari Þorsteinssyni, fréttamanni á RÚV, ekki kveðjunnar á Facebook. Gunnar Smári gagnrýnir að Einar hafi rætt við Sigríði Andersen í Kastljósi í gær en Gunnar Smári telur Einar vanhæfan þar sem hann hafi eitt sinn verið formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Helgi Selja kemur kollega sínum Einari til varnar og segir þetta aumt og taugaveiklað hjá Gunnari Smára.

Segir þetta ótækt

Gunnar Smári deildi þessari gagnrýni sinni innan Facebook-hópsins Fjölmiðlarnördar: „Nú er Einar Þorsteinsson mættur í Kastljós. Hvers vegna? Hvers vegna er fyrrum formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, látinn ræða við Sigríði Andersen, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í aðdraganda kosninga. Eru engar innanhúsreglur á RÚV sem geta verndað trúverðugleika fjölmiðilsins?“

Hann bætir svo við og segir að fyrrverandi ungliðar Sjálfstæðisflokksins hafi verið áberandi í kosningasjónvarpi RÚV fyrir síðustu kosningar. „Fyrir síðustu kosningar voru fyrrum ungliðar xD nánast í öllum umræðuþáttum. Það er ótækt. Með fullri virðingu fyrir minnihlutahópum,“ segir Gunnar Smári og biður fólk um að bera saman viðtöl RÚV við Smára McCarthy pírata annars vegar og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, hins vegar.

Er að leysa Baldvin af

Einar svarar Gunnari Smára síðar í þræðinum og segist vera að leysa Baldvin Þór Bergsson af í Kastljósinu þar sem hann eignaðist stúlku á dögunum. Hann segir að hver og einn verði að leggja mat á sín störf. „Það er rétt að ég var formaður Týs í eitt ár minnir mig eftir menntaskóla. Fyrir nærri 20 árum. Það var skemmtilegt að kynnast starfi stjórnmálaflokks á þann hátt og ég sé ekki eftir því. Ég sagði mig hinsvegar úr flokknum þegar ég fékk áhuga á fréttum og fór að vinna á fréttastofu Rúv. Ég hef núna starfað á fréttastofunni í 12 ár. Varðandi þessa þætti og önnur störf mín á fréttastofunni sem þú deilir hér í athugasemdum þá er það nú svo einfalt að hver og einn getur lagt mat á mín störf. Þau eru fyrir allra augum. Ég reyni einfaldlega að gera mitt besta hverju sinni,“ segir Einar.

Gunnar Smári svarar og segist til í málamiðlun: „Einmitt, þess vegna setti ég þættina inn og hvatti fólk til að meta þetta. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að á Ríkisútvarpinu eigi að gilda reglur um að fyrrum forystufólk í stjórnmálaflokkum eigi ekki að fjalla um pólitík, allra síst þegar dregur að kosningum. Ég er sem sé til í málamiðlun; að þú fáir að fjalla um pólitík utan kosningabaráttu.“

„Ósköp venjulegur kosningaskjálfti í þér“

Helgi Seljan, einn stjórnanda Kastljóssins, kemur Einari til varnar og segir Gunnar Smári ætti að biðjast afsökunar á ummælum sínum. „Ferlega er þetta aumt og taugaveiklað. Og að gefnu tilefni er rétt að taka fram að sjálfur var ég varaformaður félags ungra Sjálfstæðismanna á Eskifirði; fulltrúi þeirra á landsfundi SUS, og stjórnarmaður í Sjálfstæðisfélagi Reyðarfjarðar, auk þess að starfa fyrir einn frambjóðenda Samfylkingarinnar í prófkjöri og svo framboðið í einum kosningum, áður en ég sagði mig úr flokknum stuttu síðar ásamt hópi annarra,“ segir Helgi.

Gunnar Smára svarar og segir: „Enda færð þú ekki að koma nálægt kosningasjónvarpinu, skiljanlega“. Því svarar Helgi: „Ég fæ ekki að koma nálægt sjónvarpi af því að ég vel alltaf svo leiðinlegt efni til að horfa á. En, jú, ég kem reyndar eitthvað að því, eins og fjöldi annarra og hef gert í þessum sirka 140 kosningum sem hér hafa verið síðastliðin misseri. Ég held það væri vel á því að þú bæðist afsökunar á þessu Smári. Þetta er augljóslega bara ósköp venjulegur kosningaskjálfti í þér; sem er þér vissulega nýr, verandi kominn á fullt í pólitík sjálfur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“

Áslaug Arna minnist móður sinnar: „Sorgin fyrst er auðvitað bara ólýsanleg“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“

Rán segir fyrirtæki valta yfir Íslendinga: „Munu ganga eins langt og þau komast“
Fréttir
Í gær

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð

Kristmundur Axel ákærður: Birti myndbönd af neyslu og fór í meðferð
Fréttir
Í gær

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum

Björn varpar ljósi á eyðslu íslenskra barna í Fortnite – 10 ára piltur eyddi 150 þúsund krónum