fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Margir minnast Sigurðar: „Það datt allt í dúnalogn og hann talaði beint til hvers og eins í salnum“

Lýst sem bóngóðum húmorista og einstöku ljúfmenni – „Þín verður sárt saknað, takk fyrir orðin, sögurnar, ljóðin“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 20. september 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hvílík harmafregn. Einn ljósasti punkturinn við það að starfa miðsvæðis í Reykjavík síðustu áratugi var hve oft maður hitti Sigga á förnum vegi og náði að spjalla um heima og geima. Sigurður var andans jöfur og einstakur ljúflingur. Sakna þín vinur, við hin erum fátækari án þín,“ ritar Óttar Proppé einn þeirra fjölmörgu einstaklinga sem minnast Sigurðar Pálssonar rithöfundar og ljóðskálds á samfélagsmiðlum nú í dag. Líkt og DV greindi frá í morgun lést Sigurður á líknardeild Landspítalans í gær eftir erfið veikindi.

Sigurður fékkst við ýmis störf í um ævina. Hann var fréttaritari, leiðsögumaður, kennari og vann við sjónvarp og kvikmyndir. Hann var forseti Alliance Française um skeið og formaður Rithöfundasambands Íslands. Einnig kenndi Sigurður ljóðlist við ritlistarbraut Háskóla Íslands. Þekktastur varð Sigurður þó fyrir ritstörf sín. Hann sendi frá sér fjölmargar ljóðabækur og var talinn eitt frumlegasta og besta ljóðskáld þjóðarinnar.

Ljóst er að Sigurður snerti hug og hjörtu ótalmargra á lífsleið sinni eins og glögglega má sjá á skrifum fólks á samfélagsmiðlum.

Sorgarfregn

„Blessuð sé minning stórskáldsins Sigurðar Pálssonar. Ég votta Kristínu Jóhannesdóttur mína dýpstu samúð og ættingjum og vinum,“ ritar Stefán Karl Stefánsson leikari.

Stefán Karl Stefánsson.
Stefán Karl Stefánsson.

Björgvin Halldórsson söngvari segir fráfall Sigurðar vera sorgarfregn.

„Ég var svo heppinn að þekkja hann kynnast honum og hanga með honum ásamt góðu fólki á 7 áratugnum.Hann gerði texta fyrir okkur í Ævintýri. Minning um góðan dreng lifir. Hvíl í friði Siggi minn. Vottum fjöslkyldu og vinum samúð.“

Björgvin Halldórsson.
Björgvin Halldórsson.

Mynd: Þórhallur Jónsson

„Blessuð sé minning Sigurðar Pálssonar,“ skrifar Friðrik Erlingsson rithöfundur. Hann vitnar um leið í eina af sögum Sigurðar, Minnisbók:

„Gleymskan sem þurrkar út, minnið sem umbreytir,“ segir Kundera í bók sinni Tjöldunum.
Þrjú spæld egg í morgunkyrrð á franska garðinum á Cité einhvern tímann í apríl 1968, ég man ykkur enn.
Gleymskan hefur þurrkað allt sem engu skiptir út úr morgunverðarkjallaranum, minnið hefur umbreytt
þessum spæleggjatíma eftir heila nótt með Lady Madonna í helga stund þar sem þetta eitt skiptir máli:
Listen to the music playing in your head.“

Ásgrímur Sverrisson.
Ásgrímur Sverrisson.

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Ekki aðeins skáld á blaðsíðum bóka

„Hvíl í friði Sigurður Pálsson og takk fyrir allt,“ ritar Ásgrímur Sverrison kvikmyndagerðarmaður á meðan Illugi Jökulsson blaðamaður og rithöfundur fullyrðir að verk Sigurðar muni lifa um ókomna tíð.

„Sigurður Pálsson var skáld. Hann var ekki aðeins skáld á blaðsíðunum sem hann lætur eftir sig, svo snjallar sem þær eru, eða textanum í munni leikpersóna sinna; hann var líka skáld í lífi sínu, í fasi sínu, hátterni og framkomu, og því hvernig hann sýndi jafnt lífi og fólki fyllstu virðingu. Þegar maður hitti Sigurð jókst alltaf svolítið trú manns á bæði lífið og manninn; og skáldskapinn, maður lifandi, skáldskapinn. Og sá Sigurður er ekki dáinn og mun seint deyja.“

Alltaf mörgum skrefum á undan

Viðar Eggertson leikari og leikstjóri minnist þess þegar Sigurður Pálsson birtist honum fyrst „sem ungi, tággranni maðurinn í París með svörtu alpahúfuna.“:

„Hann leiddi mig og félaga mína í leiklistarskóla SÁL um vegi ljóðsins, heimspekinnar og leiklistarinnar á okkar mótunarárum… og gerði það alla tíð síðan. Hann var skáldið okkar og alltaf mörgum skrefum á undan okkur. Nú er hann genginn og „þung er sú þögn í landi.“

Guðrún S. Gísladóttir leikkona lætur fylgja með myndskeið þar sem heyra má lagið Paint it Black með hljómsveitinni Rolling Stones, um leið og hún rifjar upp línu úr einu af leikverkum Sigurðar.

„Elsku Sigurður Pálsson horfinn á braut og Stones enn á ferðinni, svona er óréttlæti heimsins. Hún á nú kannski ekki sérlega vel við sorgarfregn setningin eftir hann sem ég fékk að segja í Hlaupvídd sex en ég læt hana samt flakka. ( ung og fyrirferðamikil um vinkonu sína ) : Hún er svo happý þetta helvíti.“

Bóngóður, smágerður og hæglátur

Kolbeinn Óttarson Proppé blaðamaður segir verk Sigurðar eiga eftir að lifa um ókomna tíð. Hann hafi verið „bóngóður og blátt áfram maður“:

„Sigurður Pálsson var einn þeirra sem mér hefur alltaf þótt sérstaklega vænt um. Hann bar það einhvern veginn með sér að honum þætti vænt um lífið og því leið mér alltaf vel eftir að hafa rekist á hann á förnum vegi. Þrátt fyrir að hafa alltaf lesið og verði orðsins maður hef ég, af einhverju ástæðum, minna lesið af ljóðum en annars konar texta. Mínir rithöfundadraumar á unglingsárunum snérust um að verða nýr Jökull Jakobsson, ekki að yrkja ljóð. En alltaf vissi maður af Sigurði og á þeim árum fannst mér viðburður að bíða í sama strætóskýli og hann.

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Mynd: Af Facebook

Þegar við Kristinn urðum þrítugir (það eru fimm dagar á milli okkar) héldum við upp á sextugsafmælið okkar. Það var mikil veisla, ekki bara ópen mæk, heldur ópen steidj – græjur uppi á sviði sem hver gat gengið í, mikill hávaði, mikil gleði. Félagar okkar arranseruðu því að fá Sigurð til að koma og lesa, gjöf til okkar, enda var hann í miklum hávegum hafður í vinahópnum. Ég gleymi því aldrei þegar hann steig á svið í látunum öllum, smágerður og hæglátur, og fór að lesa ljóðin sín. Það datt allt í dúnalogn og hann talaði beint til hvers og eins í salnum.

Eftir það spjallaði hann í hvert skipti sem við hittumst, ég horfði ekki lengur í andakt á hann í strætóskýlum heldur ræddi við hann. Ljúfur, hæglátur og skemmtilegur.

Þegar við félagarnir blésum í áttræðisafmæli áratug síðar kom upp sú hugmynd að fá hann aftur. Það fórst eitthvað fyrir í amstri dagsins, en á sjálfan afmælisdaginn hringdi ég í hann með nokkurra klukkutíma fyrirvara. Afsakið hve fyrirvarinn er stuttur, en gæti hann nokkuð endurtekið leikinn frá í sextugsafmælinu okkar? Hann hélt það nú, það væri bara gaman, og afþakkaði það að vera sóttur eða að við borguðum leigubíl fyrir hann, þetta væri við Hringbrautina og mjög hentugt að taka strætó.

Ljóðin hans munu lifa um ókomna tíð og skáldsögurnar, að ég tali nú ekki um minningabækurnar, og fyrir mér mun hann einnig lifa sem bóngóður og blátt áfram maður sem gaman var að hitta, af því að hann gaf alltaf eitthvað af sér.“

Ari Matthíasson.
Ari Matthíasson.

Mynd: Facebook-síða Ara

Hláturmildur húmoristi

Þá nefnir Ari Matthíasson leikhússtjóri Þjóðleikhússins að Sigurður hafi opnað fyrir honum heim bókmenntanna.

„Sigurður Pálsson færði mér Evrópu og Frakkland þegar ég var táningur. Hann opnaði fyrir það sem var nýjast og merkilegast í bókmenntum, beindi mér á óvæntar og nýjar brautir til að skynja veruleikann og gaf mér nýja sýn. Hann var fyrir mér einn af landnámsmönnunum. Og frábær húmoristi og hlátur hans býr í mér og yljar mér um leið og ég syrgi þennan góða og blíða mannvin. Blessuð sé minning hans.„

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata vitnar í verkið Ljóðnámumenn eftir Sigurð:

„Sigurður Pálsson stórskáld og lífsins ljúfmenni er fallinn frá, eins og sönnu skáldi er gefið ritaði hann fyrir löngu síðan eftirmæli sín.
… og hann farinn og skildi ekkert eftir
farinn og skildi ekkert eftir
ekkert eftir
nema allt.“

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.

„Takk fyrir orðin,sögurnar,ljóðin“

Reynir Lyngdal leikstjóri minnist Sigurðar sömuleiðis:

„Blessuð sé minning Sigga Páls. Þín verður sárt saknað, takk fyrir orðin, sögurnar, ljóðin. Hugur minn er hjá Kristínu Jóhannesdóttur og ættingjum og vinum.“

Hugleikur Dagsson listamaður og rithöfundur ritar jafnframt minningarorð á facebooksíðu sína. Þó svo að færsla Hugleiks sé stutt segir hún ef til vill allt sem segja þarf:

„Sigurður Pálsson var alltaf svo næs.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki