Óhugnanleg skilaboð til norður-kóreskra hermanna

Kim Jong-un einræðisherra heilsar upp á landa sína.
Kim Jong-un einræðisherra heilsar upp á landa sína.

Ástandið á Kóreuskaga hefur verið ótryggt undanfarna mánuði og samskipti Norður-Kóreu við umheiminn virðast fara síversnandi en einræðisstjórnin í landinu hefur ótrauð haldið áfram eldflaugatilraunum sínum. Þessar tilraunir fara mjög fyrir brjóstið á flestum öðrum ríkjum heims enda ómögulegt að geta sér til um hvað einræðisstjórnin gerir næst. Nú hafa hermenn landsins fengið óhugnanleg skilaboð frá yfirmönnum sínum en þau hafa skotið mörgum skelk í bringu.

Þetta kemur fram í suður-kóreska vefmiðlinum Daily NK. Vefmiðillinn segist hafa heimildir fyrir að hermönnum, allt frá óbreyttum og upp úr, sé nú sagt að stríð sé skammt undan og að þeir eigi að stela sér til matar.

„Ungir hermenn, sem eru þreyttir á miskunarlausu hungrinu, neyðast oft til að stela mat. Meira að segja yfirmenn neyðast til að gera þetta. Þetta er vegna þess að æðstu yfirmönnum hersins hefur verið sagt að þeir eigi að segja undirmönnum sínum að stela mat af ökrum landsins ef þeir eru þreyttir eftir æfingar. Þetta sé vegna þess að stríð sé skammt undan. Hermönnunum er jafnfram hótað að ef þeir verði vannærðir þrátt fyrir að eiga að stela mat af ökrunum þá lendi þeir í vandræðum.“

Þetta hefur Daily NK eftir heimildarmanni í Norður-Kóreu. Miðillinn birti einnig myndir sem sýna að bændur eru farnir að standa vörð um akra sína til að reyna að koma í veg fyrir að svangir hermenn steli uppskerunni.

Nýlega skýrði The Guardian frá því að mikill matarskortur sé nú í Norður-Kóreu. Blaðið segir að þurrkar í sumar hafi komið illa niður á ræktun og það valdi miklum vanda.

Blaðið hefur eftir japanska blaðamanninum Jiro Ishimaru, sem er í sambandi við nokkra heimildarmenn í Norður-Kóreu, að það séu margir hermenn sem þurfi að sjá fyrir mat en ástandið sé þannig núna að margir hermenn séu í afleitu líkamsástandi vegna næringarskorts. Þeir geti ekki barist ef til átaka kemur við Suður-Kóreu og Bandaríkin.

Hann segir að einnig setji spilling mark sitt á samfélagið og að háttsettir hermenn steli mat frá hernum og selji á svarta markaðnum og því sé lítið sem ekkert til skiptanna fyrir þá lægst settu.

Sameinuðu þjóðirnar óttast að hungursneyð sé yfirvofandi í landinu og að hún verði álíka slæm og hungursneyðin 2001 en þá sultu milljónir landsmanna heilu hungri á meðan valdhafarnir höfðu það gott og nóg að borða.

Ekki er því ólíklegt að vopnaskak Kim Jong-un undanfarið sé til þess gert að dreifa athygli landsmanna frá matarskortinum og fá þá til að þjappa sér saman að baki stjórnvalda.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.