fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

„Við erum ekki hrædd“

Kolbrún Bergþórsdóttir var í Barcelona þegar hryðjuverkaárás var gerð

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 25. ágúst 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir fjölmörgu sem urðu vitni að hryðjuverkaárásinni á Römblunni urðu vitaskuld skelfingu lostnir. Það á við um þá tugi einstaklinga sem þustu inn í stórmarkaðinn Carrefour við þessa frægu götu. Fólk var í miklu uppnámi og margir grétu. Versluninni var snarlega lokað og járnhlerar settir fyrir. Um hundrað manns höfðust þar við í nær fimm tíma. Merkileg ró myndaðist í þessi litla innilokaða samfélagi. Fólk settist niður, einn maður las allan tímann í bók, rétt eins og ekkert hefði gerst, aðrir gengu um. Flestir voru í símanum en upplýsingar voru mjög misvísandi.

Fólk hélt ró sinni en var mikið í símanum.
Í Carrefour-verslunarmiðstöðinni Fólk hélt ró sinni en var mikið í símanum.

Þakkaði Guði lífgjöfina

Þarna var hinn vingjarnlegi Santos frá Indlandi, en búsettur í Kanada, með konu sinni og tveimur börnum. Hann var rétt hjá þegar bílinn kom æðandi en hafði hrint börnum sínum frá. Hvað eftir annað þakkaði hann Guði og sagði björgun fjölskyldunnar vera kraftaverk. Þarna voru breskar mæðgur sem einnig komust naumlega undan. Dóttirin, unglingsstúlka, talaði á afar yfirvegaðan hátt um hryðjuverkaógnina í heiminum og að við mættum aldrei gleyma kærleikanum. Við mættum heldur ekki vera of hrædd. Mæðgurnar voru áberandi rólegar og fundu sér ýmislegt til dundurs eins og að fara í leiki þar sem leysa átti ýmsar þrautir. Annette frá Bretlandi hafði skroppið frá hóteli sínu til að kaupa vatn. Nú var hún aðskilin frá eiginmanni og tveimur unglingssonum. Annar þeirra hafði orðið vitni að árásinni en sloppið inn á hótel þar sem faðir hans og bróðir voru. Annette orðaði það sem margir í versluninni virtust vera að hugsa þegar hún sagði: „Hér erum við innilokuð í erfiðri stöðu en við erum heil á húfi og verðum að reyna að gera það besta úr þessu.“

Hann þakkaði Guði lífgjöfina.
Santos og fjölskylda Hann þakkaði Guði lífgjöfina.

Auðvitað var ekki jafn auðvelt fyrir alla að halda ró í aðstæðum eins og þessum. Afgreiðslukona grét sáran og tárin streymdu niður andlit hennar. Japönsk kona starði á síma sinn og horfði á vídeóupptöku sem henni hafði verið send af fólki sem lá í blóði sínu á Römblunni. Hún gat ekki hætt að horfa og grét allan tímann. Hún horfði ráðþrota í kringum sig og lyfti símanum upp og sýndi öðrum.

Eftir nærri fimm tíma var hlerum loks lyft og dyr opnaðar af þungvopnuðum lögreglumönnum sem sögðu fólki að ganga út í einfaldri röð með hendur fyrir ofan höfuð og opnar töskur. Fólk sem kynnst hafði við erfiðar aðstæður kvaddist, jafnvel með kossi, og vissi að það ætti ekki eftir að hittast aftur, en myndi aldrei gleyma þessum klukkutímum.

Fólk skrifaði nöfn borga sinna og landa.
Skilaboð krítuð á gangstétt Fólk skrifaði nöfn borga sinna og landa.

Stöðugt nýjar leiðir

Hræðslan var ekki við völd á Römblunni daginn eftir. Ramblan var full af fólki af öllum þjóðernum, sem gerði sér sérstaka ferð þangað til að sýna að það væri ekki hrætt. Fólk fann stöðugt nýjar leiðir til að sýna samstöðu og votta hinum látnu og særðu virðingu sína og hlýju. Því fannst ekki nóg að leggja blóm á götuna, kveikja þar á kertum, skrifa skilaboð og koma fyrir böngsum. Þegar hvert blómahafið á fætur öðru hafði risið byrjaði fólk að skrifa skilaboð á litla límmiða sem það setti á götustaura. Skilaboðin voru á hinum ýmsu tungumálum. Þau lýstu sorg en voru jafnframt hvatning um að óttast ekki og áminning um mikilvægi ástar, umburðarlyndis og vináttu í hættulegum heimi. Svo fór fólk að kríta á götuna nöfn borga sinna og lands síns og teiknaði hjörtu. Fólk streymdi einnig að með hvítar pappírsarkir, með rauðum hjörtum, sem skilaboð voru skrifuð eða prentuð á og festi með klemmum á snúrur sem það hafði komið fyrir milli ljósastaura og stólpa. Hver sá sem misst hafði trú á mannkynið eftir hina mannskæðu hryðjuverkaárás hlaut að endurheimta þá trú, ef ekki að fullu þá að minnsta kosti að einhverju leyti.

Fólk fann sífellt nýjar leiðir til að sýna hug sinn.
Skilaboð með rauðum hjörtum Fólk fann sífellt nýjar leiðir til að sýna hug sinn.

Lögregla stóð vaktina og á andlitum lögreglumanna mátti sjá að þeir voru jafn snortnir af samkenndinni og allir aðrir sem þarna voru. Fjölmiðlafólk var við nær hvert fótmál, tók viðtöl og myndaði, eins og vegfarendur gerðu einnig.
En stundum er ekki við hæfi að taka myndir. Þrjú ungmenni sátu á Römblunni, höfðu haft með sér sprittkerti sem þau kveiktu á og störðu á logann í þögn. Djúp sorg þeirra fór ekki framhjá neinum. Þau sátu þarna lengi meðan fólk gekk framhjá. Maður gekk til þeirra og virtist spyrja um ástæðu þess að þau sátu þarna ein. Annar ungu mannanna svaraði honum. Vegfarandinn beygði sig niður að stúlkunni og faðmaði hana. Eftir allnokkurn tíma þegar slokknað hafði á kertinu stóðu þremenningarnir upp. Stúlkan brast í grát og vinir hennar föðmuðu hana. Á öðrum stað á Römblunni stóð bandarísk kona, búsett í Barcelona, sem bauð vegfarendum faðmlag, sem margir þáðu. Þetta var dagurinn til að faðma ókunnuga.

Meðal þeirra ótal skilaboða sem sjá mátti á Römblunni voru orð sem skrifuð voru með afar fallegri rithönd á stórt pappírsblað. Þau voru á ensku og hljóðuðu svo: „Verið jákvæð. Gangið áfram!“

Og það var einmitt það sem fólk gerði.

„Stay positive and keep walking. Barcelona is beautiful.“
Falleg skilaboð „Stay positive and keep walking. Barcelona is beautiful.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki