fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Skemmtiferðaskip þegar bókað komu sína árið 2026

Ekki ber á afbókunum vegna gengis – Enn fleiri farþegar væntanlegir á næsta ári

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 17. maí 2017 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Búast má við að enn eitt metið verði sett í komu farþega með skemmtiferðaskipum á næsta ári. Reiknað er með að um 128 þúsund farþegar komi til landsins með skemmtiferðaskipum í ár en samkvæmt bókunum fyrir næsta sumar, 2018, má búast við að minnsta kosti 140 þúsund farþegum þá. Markaðsstjóri Faxaflóahafna segir að þar á bæ finni fólk ekki fyrir samdrætti eða afbókunum þrátt fyrir sterkt gengi krónunnar. Hún viðurkennir þó að hún heyri raddir þar sem lýst er áhyggjum af háu verðlagi hér á landi og hvaða áhrif það geti haft til langs tíma.

Met slegin

Von er á metfjölda skemmtiferðaskipa til landsins í sumar og samkvæmt upplýsingum frá Faxaflóahöfnum er búist við 153 skipum í hafnir þar. Reiknað er með 151 komu til Akureyrar og Grímseyjar saman og að sögn Péturs Ólafssonar, hafnarstjóra Hafnasamlags Norðurlands, er nánast eingöngu um að ræða sömu skipin. Heildarfjöldi farþega sem koma til landsins í ár með skemmtiferðaskipum er um 128 þúsund manns, fjölgun um 29 prósent frá fyrra ári en þá voru farþegarnir um 99 þúsund. Þá hefur skipakomum fjölgað en í fyrra komu 113 farþegaskip til landsins. Um sex prósent þeirra erlendu ferðamanna sem koma til landsins eru farþegar á skemmtiferðaskipum.

Stærri skip á leiðinni

Nú þegar hefur 121 skip boðað komu sína til landsins árið 2018. Farþegafjöldinn verður í kringum 140 þúsund manns, sem merkir að skipin sem koma á næsta ári eru almennt stærri en þau sem koma til landsins í ár. „Við höfum verið að reyna að markaðssetja Ísland sem viðkomustað fyrir smærri skip, því þau komast í fleiri hafnir,“ segir Erna Kristjánsdóttir, markaðsstjóri hjá Faxaflóahöfnum. „Þetta er ekki endanlega tala og eins og sjá má þá verða gestir fleiri en í ár, þrátt fyrir færri skipakomur. Ég gæti alveg trúað að fleiri skip muni bóka komu sína, þótt ég geti ekki fullyrt það.“

Alls eru 16 hafnir hringinn í kringum landið aðilar að samtökunum Cruise Iceland, sem eru samtök aðila sem taka á móti skemmtiferðaskipum. Langstærstu hafnirnar í þessum efnum eru Sundahöfn, Akureyri og Ísafjarðarhöfn. Hins vegar koma skip víða við og segir Pétur Ólafsson, stjórnarformaður Cruise Iceland, það mjög jákvæða viðbót við rekstur hafnanna og ferðaþjónustuna. Þar sé verið að nýta innviði sem séu til staðar á hverjum stað, án auka tilkostnaðar svo nokkru nemi.

Engar afbókanir

Erna segir að ekki hafi borið á afbókunum eða miklum óróa skipafyrirtækjanna. „Ég hef svo sem tekið eftir því að fólk sé að hafa áhyggjur af verðlagi hér á landi. Það er hins vegar mikill áhugi á Íslandi og komum hingað, fólk er að sækja í náttúruna.“ Pétur tekur undir þetta en segir að grennslast hafi verið fyrir um gjaldskrárhækkanir. „Það bítur væntanlega eitthvað í, hátt gengi og hækkandi verðlag. Ég er viss um að ferðaþjónustur úti sem veita þessum skipum þjónustu sækja fast að íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum um betra verð. Það er þó aðeins annað með þessar skipakomur en flugið, menn kaupa mest af sínum aðföngum erlendis á skipunum og því hefur verðlag hér ekki sömu áhrif og í fluginu.“

Sólmyrkvi dregur að

Komur skemmtiferðaskipa eru vanalega bókaðar nokkuð fram í tímann, oft eitt til þrjú ár. Þó eru dæmi um enn lengri fyrirvara. Árið 2026 verður þannig almyrkvi á sól sem sjást mun einkar vel á norðurslóðum, af hafi og á vesturhluta Íslands, frá Suðurnesjum og allt norður eftir yfir Vestfirði. Deildarmyrkvi verður sýnilegur víðast hvar um landið. Erna segir að þegar hafi skemmtiferðaskip bókað komu sína í ágúst þetta ár, en sólmyrkvinn verður 12. ágúst. „Við höfum þegar fengið sex bókanir árið 2026.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“

Mörg dæmi um að frændhygli, kunningsskapur og pólitísk fyrirgreiðsla ráði för – „Og svo spurði ég um spillingu“
Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“