NBA-leikmaður fannst látinn árið 2010: Nú hefur grunaður morðingi verið handtekinn

Mynd: Getty

Lögreglan í Memphis í Bandaríkjunum hefur handtekið karlmann sem grunaður er um að hafa myrt Lorenzen Wright, fyrrverandi leikmann í NBA-deildinni, árið 2010.

Wright þessi átti langan feril í NBA-deildinni í körfubolta og spilaði með liðum á borð við L.A. Clippers, Atlanta Hawks, Memphis Grizzlies og Cleveland Caveliers á árunum 1996 til 2009.

Wright var skotinn til bana sumarið 2010 en skömmu áður hafði hann hringt á neyðarlínuna. Á upptökunum heyrðust skothvellir og síðan slitnaði símtalið. Tíu dögum síðar fannst lík hans í skóglendi suðaustur af Memphis. Wright var 34 ára.

Billy Turner, 46 ára karlmaður, var handtekinn á þriðjudag vegna gruns um verknaðinn. Hann hefur nú verið kærður fyrir morð af fyrstu gráðu.

Hreyfing komst á málið í byrjun nóvember þegar byssan, sem notuð var við morðið, fannst í vatni skammt suðaustur af Memphis. Lögregla biðlaði í kjölfarið til almennings um upplýsingar og leiddi ábending til lögreglu til handtökunnar í vikunni.

Ekki kemur fram í umfjöllun Washington Post hvað varð til þess að Wright var skotinn.

Wright var öflugur kraftframherji á ferli sínum í NBA-deildinni; hann skoraði 8 stig að meðaltali í leik og tók 6,4 fráköst.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.