Leyfilegt að skíra íslenskar stúlkur nafninu Aríel

Flestir ættu að þekkja nafnið Aríel úr Disneyteiknimyndinni Litla Hafmeyjan.
Flestir ættu að þekkja nafnið Aríel úr Disneyteiknimyndinni Litla Hafmeyjan.

Kvenkyns eiginafnið Aríel er meðal þeirra sem hlaut náð fyrir augum Mannanafnanefndar í lok október síðastliðnum en flestir ættu að þekkja nafnið úr Disney teiknimyndinni frægu um Litlu Hafmeyjuna. Meðal annars kemur fram í úrskurði nefndarinnar að nafnmyndin Aríel haf áunnið sér hefð erlendis sem kvenmannsnafn en í ljósi lítillar hefðar orðsins sem mannsnafns hér á landi telur nefndin að líta beri til þess sjónarmiðs, meðal annarra, við mat á nafninu.

Eiginnafnið Aríel er ekki á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn. Það er hins vegar á þeirri skrá sem karlmannsnafn. Var því óskað eftir afstöðu mannanafnanefndar um hvort nafnið fullnægði skilyrðum laga um mannanöfn til að vera tekið á skrána sem kvenmannsnafn. Fram kemur í úrskurðinum að í lögum um mannanöfn sé kveðið á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Í þessu ákvæði felst ekki bann við því að nafn sé hvorutveggja karlmannsnafn og kvenmannsnafn. Það á til dæmis við um eiginnöfnin Blær, Júní og Auður. Þá kemur fram að nafnið Aríel taki eignarfallsendingu í kvenkyni (Aríelar) og sé ritað í samræmi við íslenskar ritreglur.

Nefndin samþykkti einnig kvenkyns eiginnöfnin Alíana, Selina og Alisa. Þá voru tvö ný karlkyns eiginnöfn samþykkt Ylfingur annars vegar og Jónsi hins vegar.

Nefndin hafnaði hins vegar kvenmannsnafninu Mia. Fram kemur í úrskurði að ritháttur nafnsins Miageti ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls þar sem a er ekki ritað á eftir einhljóðinu i. Þá hafnaði nefndin karlkyns eiginnafninu Zion. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands ber einn karlmaður nafnið Zion í þjóðskrá sem uppfyllir skilyrði vinnulagsreglnanna varðandi hefð. Nafnið Zion kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1920 og telst nafnið Zion því ekki hefðað í skilningi laga um mannanöfn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.