Vindur nær hámarki suðvestanlands í kvöld

Gert er ráð fyrir því að vindur nái hámarki suðvestanlands, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu, á næstu klukkustundum, þ.e. milli kl. 18 og 22. Eftir klukkan 22 tekur veður að lægja á þessum hluta landsins.

Eftirfarandi upplýsingar um veður og færð hafa borist frá Vegagerðinni:

Horfur eru á að vindur verði í hámarki suðvestanlands frá kl. 18 til 22. Veðurhæð allt að 23-28 m/s og hviður 35-50 m/s. S.s. á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og í Andakíl. Eins á norðanverðu Snæfellsnesi og undir Eyjafjöllum og við Markarfljót. Einnig á sama tíma mjög hvasst á Suðurnesjum. Lægir suðvestanlands á milli kl. 22 og miðnættis.

Hríðarveður á Vestfjörðum seinna í kvöld og á fjallvegum austanlands verður umtalsverð snjókoma í nótt og til morguns.

Áætlaðar lokanir

Vegagerðin áætlar loka eftirtöldum leiðum seinnipartinn í dag vegna veðurs: Hringveginum frá Markarfljóti að Vík, um Hellisheiði, Þrengsli, Kjalarnes, Hafnarfjall, Lyngdalsheiði og Þingvallaveg um Mosfellsheiði.

Viðbragðsaðilar eru tilbúnir að loka á öllum fyrrgreindum lokunarstöðum ef veðrið versnar.

Færð og aðstæður
Á Suðvesturlandi er greiðfært en mjög hvasst á flestum leiðum. Óveður er á Reykjanesbraut og á Hellisheiði.

Á Vesturlandi er farið er að snjóa á Snæfellsnesi og búið er að loka Fróðárheiði. Óveður er undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi.

Á Vestfjörðum er allvíða hálka eða hálkublettir á vegum, jafnvel sums staðar snjóþekja. Þungfært er orðið á Hrafnseyrarheiði og þæfingur er á Dynjandisheiði.

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Norðurlandi og sums staðar éljagangur. Skafrenningur er á Víkurskarði.

Vetrarfærð er á Austurlandi, snjóþekja, hálka eða hálkublettir en greiðfært er með suðausturströndinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.