fbpx
Fréttir

„Skrímslin eru við sjálf“

Frumkynþáttahyggja í sögunum – Blámenn, tröll og blemjur

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 5. nóvember 2017 16:15

Arngrímur Vídalín íslenskufræðingur varði doktorsritgerð sína fimmtudaginn 2. nóvember en hann hefur unnið að henni í fimm ár. Hún ber heitið Skuggsjá sjálfsins og fjallar um skrímsli og afmennskun í íslenskum miðaldabókmenntum. Ritgerðin fellur undir hatt rannsóknarverkefnis Ármanns Jakobssonar um hið yfirnáttúrulega, Encounters with the Paranormal.

Skrímslin á jaðri veraldar

Arngrímur rannsakaði evrópsk lærdómsrit, íslensk rit af sama meiði og íslensk sagnarit. Þessi rit voru skrifuð af lærðum mönnum og kristileg áhrif leyna sér ekki í sagnaritum eins og Íslendingasögunum. Hugmyndirnar um skrímsli koma inn með kristninni en ræturnar liggja í fornöld. Arngrímur segir að gríski sagnaritarinn Heródótus (490–425 f.Kr) hafi fjallað um skrímsli en þó ekki á trúarlegan máta. Plíníus eldri (23–79 e.Kr) fastmótaði hugmyndirnar um skrímsli á framandi slóðum utan Evrópu og þær náðu mikilli útbreiðslu. Ágústínus kirkjufaðir (354–430), einn mesti áhrifamaður kristninnar, færði síðan fyrir því rök að skrímslin væru hluti af sköpunarverki guðs.

Hugmyndirnar ganga í grófum dráttum út á það að utan hinnar kristnu Evrópu, búi þjóðflokkar hættulegra skrímsla af ýmsum toga eða skrímsl eins og Arngrímur kallar þau. Þau má sjá á fjölda landakorta frá miðöldum. „Þessi skrímsl tengjast hugmyndum um endalok heimsins eins og birtist í Opinberunarbókinni. Þá eru það hinar fordæmdu þjóðir, afkomendur Kains og Hams, sem munu berjast með andkristi við endalok heimsins og þar með er búið að undirstrika þennan kjarnaótta við útlendinginn og villutrúarmanninn. Þess vegna er svo mikilvægt að staðsetja þessi fyrirbæri á heimskortum.“

Blemjur, hundshöfuð og einfótungar
Skrímsl af ýmsum toga Blemjur, hundshöfuð og einfótungar

Landfræðilega er Ísland nálægt hinum skrímslavædda jaðri en það er hægt að sjá það í sagnaritun að höfundar hafa reynt að færa út jaðarinn. Annars vegar með því að skrifa um ferðir Íslendinga til austurs. „Þar sem þeir komast í tæri við helgidóminn og verða nálega að heilögum mönnum. Menn eins og Eiríkur og Ingvar víðförli.“ En einnig með frásögnum af ferðum manna til Norður-Ameríku. „Þar staðsetja þeir skrælingja sem þeir lýsa með heldur ómanneskjulegum hætti og einfætlinga sem eru meðal þessara alþekktu skrímsla úr kristilegri lærdómshefð.“

Kynþáttahyggja í Íslendingasögunum

Arngrímur segir fræðimenn ekki á einu máli um hvort kynþáttahyggja hafi verið til fyrir 19. öld því þá varð hugtakið til. Sjálfur telur hann kynþáttahyggju aðeins kerfislega útleggingu á hugmyndum sem hafa verið til staðar frá elstu heimildum. „Nýlegar rannsóknir á bæði fornaldar- og miðaldatextum sýna það sem við köllum frumkynþáttabundna orðræðu í þeirri merkingu að ekki er fjallað um kynþætti sem slíka. Þessi orðræða er alveg klárlega til staðar, til dæmis hjá Aristótelesi sem skiptir mannkyni í tvennt, annars vegar Grikki og hins vegar Barbara. Gyðingar eru oft á tíðum afmennskaðir og jaðarsettir, sömuleiðis múslimar og Afríkumenn. Mikið er gert úr þessum útlitslega mun á þeim og okkur.“

„Í raun og veru er þetta kynþáttahyggja en hefur verið kallað frumkynþáttahyggja í fræðunum“

Hinum svokölluðu blámönnum er lýst með hangandi varir og drjúpandi augnlok, bláir eða svartir á lit. Orðið er þó nokkuð flókið og hefur verið notað yfir Afríkumenn, múslima og Mára í gegnum tíðina. „Í raun og veru er þetta kynþáttahyggja en hefur verið kallað frumkynþáttahyggja í fræðunum.“ Hann segir þessa kynþáttahyggju koma fyrir í íslenskum sagnaritum. En eru þá Íslendingasögurnar rasískar? „Ekki beinlínis, en þær eru byggðar á þessari sömu hugmynd sem var svo mikilvæg kristnu fólki á miðöldum um hina réttu trú. Hún undirstrikar þeirra siðferði og að útlitið afhjúpi innrætið. Hinir kristnu eru ljósir yfirlitum og fagrir en hinir eru svartir og illilegir. En það eru vissulega atriði í sumum Íslendingasögunum sem okkur myndi þykja mjög rasísk nú á dögum.“ Hann segir að ekki sé hægt að skoða þessar heimildir út frá sjónarhóli nútímans. Íslendingar höfðu fæstir séð fólk af öðrum kynþáttum með berum augum og trúði því sennilega að það væri skrímsli.

Konur skrímslisgerðar sem skessur

Í ritgerðinni fjallar Arngrímur um ýmsar týpur af skrímslum. „Uppáhaldsskrímslið mitt er það sem heitir á latínu blemmye en ég ákvað að nefna blemjur á íslensku. Þær búa búa í Norður-Afríku, eru höfuðlausar og með andlit í bringunni. Síðan eru hundshöfðarnir sígildir, sem gelta en hafa ekkert tungumál. Á síðari öldum var þeim spyrt saman við múslima.“

Þekktustu skrímslin á Íslandi eru tröll en Arngrímur segir tröllin vera misskilin í miðaldabókmenntunum. „Við sjáum fyrir okkur einhverjar klunnalegar fígúrur sem verða að steini í sólinni en það er miklu yngri hugmynd. Tröll getur verið margs konar óvættur og orðið var samheiti yfir skrímsl á miðöldum. Oftast eru skrímsl ekki kölluð skrímsl í textum heldur frekar tröll og stundum skrípi.“

„Þær eru alltaf tengdar við hið náttúrulega, líkamlegar og kynferðislega afkáralegar“

Arngrímur segir skrímslin vera ágætis myndlíkingu fyrir hina óbeisluðu náttúru. „Þau eru í andstöðu við hið siðmenntaða og eitthvað sem við þurfum að brjóta undir okkur og ná stjórn á. Þess vegna eru langflest nafngreind skrímsl í íslenskum miðaldabókmenntum konur, sér í lagi skessur. Þær eru alltaf tengdar við hið náttúrulega, líkamlegar og kynferðislega afkáralegar. Konur eru því að miklu leyti skrímslisgerðar í þessum ritum.“

Í ritgerðinni eru einnig nefnd hin ógurlegu sjávarskrímsli sem koma fyrir í frásögnum og á kortum. „Þau þjóna þeim tilgangi að sýna hversu framandi tiltekið umhverfi er. Ef þú ert kominn inn á hafsvæði þar sem allt er krökkt af skrímslum þá veistu að þú ert kominn út fyrir hið siðmenntaða og kannaða svæði heimsins.“ Þetta á sér rætur í guðfræðinni, til dæmis hin íslenska hafgufa sem Arngrímur segir útgáfu af svokölluðum eyfiski. Hann er risavaxinn og lítur út fyrir að vera land. En þegar sæfarar leggja bátum sínum, kveikja elda og setja upp tjöld sekkur hann í hafið og drekkir þeim. „Eins og djöfullinn tælir hina óstaðfestu til sín og dregur þá með sér til helvítis.“

Getum ekki þekkt skrímslin

Arngrímur segir afmennskun líka þeirri sem birtist okkur með skrímslunum vera gamla aðferð sem enn sé notuð. „Það er ekki hægt að þekkja skrímslið. Þegar það er einhugur um sekt einhvers, eins og til dæmis austurríska barnaníðingsins Josephs Fritzl, þá er alltaf talað um skrímsli vegna þess að fólk neitar að horfast í augu við að fólk gerir slíka hluti. Þetta er í raun og veru byggt á gamalli arfleifð um að hið óþekkta og framandi geti ekki verið mennskt.“

Þetta kom glöggt fram þegar bók Åsne Seierstad um fjöldamorðingjann Anders Breivik, Einn af okkur, kom út. „Allt varð vitlaust. Fólk sagði að hann væri ekki einn af okkur, hann væri skrímsli. Þarna kom fram tregða til að viðurkenna að skrímslin eru við sjálf.“

Hann segir slíka afmennskun margoft hafa komið fram til dæmis í stríðum, sér í lagi hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni og að við sjáum þetta enn þá í fjölmiðlum, til dæmis varðandi múslima. „Það er ákveðin tilhneiging til þess að finna einhver hentug dæmi um einhverja erkitýpu hins vonda múslima og stilla henni upp sem fulltrúa hinna, sem séu þá í andstöðu við hin vestrænu gildi sem okkur þykir svo vænt um.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“

Helgi um Val banamann: „Hversu fullur má maður vera til þess að einhver megi berja mann til dauða?“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins

Eva Joly sérstakur gestur á 10 ára afmæli hrunsins
Fréttir
Í gær

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“

Gyðingar og múslimar telja að umskurðarbann á Íslandi leiði til útskúfunar: „Þetta er það sem gerðist í Þýskalandi nasista“
Fréttir
Í gær

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp

Hvað á að gera við konu sem er með vesen? Segja henni upp
Fyrir 2 dögum

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?

Baráttan um fiskinn – Átök framtíðarinnar?