Fréttir

Dóttir Ástríðar hætt komin: „Þú sem keyrðir framhjá bíl dóttur minnar ættir að skammast þín“

Einar Þór Sigurðsson
Mánudaginn 20. nóvember 2017 11:00

„Þessum ökumanni hlýtur að hafa legið alveg svakalega mikið á,“ segir Ástríður Jóna Guðmundsdóttir, móðir nítján ára stúlku, í samtali við DV. Dóttir Ástríðar var á leið til vinnu í gærmorgun þegar hún missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún valt og endaði utan vegar.

Slysið varð um klukkan 08.40 í gærmorgun á Hafnavegi, skammt frá Höfnum á Reykjanesskaga.

Gat ekki annað en séð hana

Ástríður er mjög ósátt við ökumann bifreiðar sem ók fram hjá slysstaðnum rétt eftir slysið og segir hún að engar líkur séu á því að ökumaður þeirrar bifreiðar hafi ekki séð bílinn þar sem hann var utan vegar.

„Þú sem keyrðir fram hjá bíl dóttur minnar í morgun um 08:40 á Hafnavegi eftir að hún var nýbúinn að keyra út af og fara 2 veltur ættir að skammast þín. Þú gast ekki annað en séð hana 3 metra fyrir utan veg með háu ljósin á og veifaði örvæntingarfullt til þín í gegnum brotna hliðarrúðuna er hún sá þig koma,“ sagði Ástríður í færslu á Facebook-síðu sinni í gær.

„Ekki þér að þakka“

„Það var -10 stig frost og þú í þínum hlýja bíl gast með óskiljanlegum hætti bara haldið áfram. Það er svo sem ekki þér að þakka að hún komst af sjálfsdáðum út úr bílnum með því að sparka framrúðuna úr rétt í þann mund sem yndislegt par á ferðalagi um Ísland bauð henni inn í bíl til sín, vatn að drekka og borða ef hún vildi. Hún er eftir mjög ítarlega skoðun á Hss og Landsspítalanum ómeidd sem betur fer og segja þeir sem komu að þarna bjargaði beltið,“ bætti Ástríður við í færslunni og tók að lokum fram að bíllinn hafi verið á splunkunýjum nagladekkjum.

Slapp með skrámur og marblett

Í samtali við DV segir Ástríður að slysið hafi ekki gert boð á undan sér, kalt hafi verið í veðri og hálka á veginum. „Hún finnur skyndilega að hún er að missa stjórn á bílnum,“ segir Ástríður sem telur að beltið hafi komið í veg fyrir að dóttir hennar hefði kastast út úr bílnum. Ljóst má vera að illa hefði getað farið ef það hefði gerst. Dóttir hennar slapp með smáskrámur á höfði og höndum eftir glerbrot. Þá er hún aum í vöðvum og með einn marblett en að öðru leyti við góða heilsu.

Ástríður segir að bíllinn hafi verið með háu ljósin á þar sem hann lá utan vegar eftir velturnar og ljósin á honum hafi lýst upp á veginn. „Þegar þetta er nýbúið að gerast sér hún umræddan bíl. Bíllinn hennar er á hliðinni og hún nær að teygja höndina upp og veifa. Þetta var svo stutt frá veginum að þetta gat ekki farið fram hjá neinum,“ segir Ástríður sem bætir við að dóttir hennar hafi verið í sjokki eftir slysið en einnig reið yfir því að bifreiðinni var ekið fram hjá.

Útlendingarnir sem komu að slysinu hafi verið til fyrirmyndar, boðið henni vatn og spurt hana hvort hún væri búin að hringja í aðstandendur.

Ástríður segir að mest um vert sé að dóttir hennar hafi ekki slasast alvarlega en gagnrýnir þó einnig sinnuleysi ökumannsins sem ók fram hjá. Ljóst sé að einhver hafi vakað yfir dóttur hennar og hún muni héðan í frá þakka fyrir bílbeltin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

FókusFréttir
Í gær

Rut bjó til hálsmen úr endajaxli og gaf kærastanum svo hann geti verið með hluta af henni á sér

Rut bjó til hálsmen úr endajaxli og gaf kærastanum svo hann geti verið með hluta af henni á sér
Í gær

Hvar eru konurnar?

Hvar eru konurnar?
FókusFréttir
Fyrir 2 dögum

Frá Akureyri í innflytjendafangelsi í Bandaríkjunum – Hlekkjuð á höndum og fótum – „Eins og að vera dýr í búri“

Frá Akureyri í innflytjendafangelsi í Bandaríkjunum – Hlekkjuð á höndum og fótum – „Eins og að vera dýr í búri“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Landlæknisembættið varar við misnotkun á ávanabindandi lyfjum

Landlæknisembættið varar við misnotkun á ávanabindandi lyfjum