Fréttir

Össur og Linda vilja milljón og afsökunarbeiðni frá Huldu

Ætlar ekki að taka upp veskið – Brá þegar bréfið barst – Reykjavík Ink í aðalhlutverki í nýjum þáttum

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Sunnudaginn 8. janúar 2017 09:00

„Mér brá auðvitað og fannst þetta óþægilegt,“ segir Hulda Lind Stefánsdóttir en hún hefur verið krafin um afsökunarbeiðni sem skuli birtast í Stundinni og eina milljón króna í skaðabætur vegna ummæla sem hún lét falla í tengslum við fréttaflutning af sprengjuárás á húðflúrstofuna Immortal Art í Hafnarfirði.

Eigendur Immortal art, Ólafía Kristjánsdóttir og Andri Engilbertsson, náðu aldrei að opna stofuna í Hafnarfirði. Nokkrum klukkutímum áður en fyrsti viðskiptavinur átti að mæta í hús, komu tveir menn á skellinöðru, brutu rúðu á stofunni og köstuðu inn tívolíbombu með þeim afleiðingum að eldur kviknaði og innanstokksmunir gjöreyðilögðust. Í kjölfarið voru fimm handteknir en fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald en Hæstiréttur átti eftir að fella úrskurðinn úr gildi nokkrum dögum síðar. Á meðal þeirra sem úrskurðuð voru í gæsluvarðhald en sleppt voru eigendur Reykjavík Ink, Össur Hafþórsson og Linda Mjöll Þorsteinsdóttir.

Sjá einnig: Ólafía og Andri segja alla söguna

Í frétt á Stundinni sagði að Ólafíu og Andra hefði í nokkrar vikur verið hótað og árásin verið til að drepa samkeppni á flúrmarkaðinum. Ekki var greint frá hverjir lægu undir grun né að Össur og Linda væru fyrrverandi vinnuveitendur Ólafíu. Í kommentakerfi Stundarinnar lét Stella Rut Sjafnar eftirfarandi ummæli falla:

„Rvk ink stendur á bakvið þetta.“

Hulda Lind tjáði sig undir innleggi Stellu og skrifaði: „Án nokkurs vafa!“

Krafa um afsökunarbeiðni

Hulda og Ólafía eru bræðrabörn, báðar ættaðar frá Vestfjörðum og leikfélagar í æsku. DV hefur heimildir fyrir því að kröfubréf hafi verið sent á fleiri einstaklinga sem hafi tjáð sig um sprengjuárásina á samfélagsmiðlum og kommentakerfum og talið tengingu vera á milli hennar og Reykjavík Ink. Stella Rut sem átti upphafsinnleggið kannaðist þó ekki við að hafa borist kröfubréf.

Gísli Kr. Björnsson, lögmaður Lindu og Hafþórs, vildi í samtali við DV ekki greina frá hversu mörg kröfubréfin eru og sagði að málin yrðu ekki rekin í fjölmiðlum. Í kröfubréfinu sem Huldu Lind barst segir:

„Krafa um afsökunarbeiðni og leiðrétting – Aðvörun um málshöfðun. Til mín hafa leitað Össur Hafþórsson og Linda Mjöll Þorsteinsdóttir vegna ummæla sem þú lést falla á umræðuþræði á vefriti Stundarinnar, kl 21:30 þ. 1. nóvember 2016.

Ummælum þínum er beint gegn umbj. mínum með ærumeiðandi og tilhæfulausum hætti og varða ummælin refsi- og fébótaábyrgð á samkvæmt a. lið 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla, auk þess sem þau brjóta gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem ærumeiðandi aðdróttanir. Ummæli þín eru eftirfarandi:

„Án nokkurs vafa!“

Og voru þau látin falla undir neðangreind ummæli Stellu Rutar Sjafnar, réttu nafni Stellu Rutar Jensdóttur.

„Rvk ink stendur á bak við þetta.“

Er ummælum þínum ætlað að styrkja fullyrðingu Stellu Rutar sem fela í sér grófa ásökun um að umbjóðendur mínir hafi framkvæmt þann refsiverða verknað sem þar er lýst.“

Segir Gísli að með ummælunum sé vegið alvarlega að æru og starfsheiðri umbjóðenda hans. Krefst Gísli þess að Hulda biðji Lindu og Hafþór afsökunar og skal það birtast eins og áður segir í Stundinni. Þá skal Hulda greiða eina milljón í skaðabætur, að öðrum kosti verði höfðað dómsmál á hendur henni án frekari viðvörunar.

Brá þegar bréfið barst

Reykjavík Ink er ein þekktasta húðflúrstofa landsins og hafa eigendur margsinnis verið umtalsefni fjölmiðla. Á fimmtudagskvöld var þátturinn Flúr og fólk tekinn til sýninga á Stöð 2 og leikur Reykjavík Ink stórt hlutverk í þeim þáttum. Þættirnir voru teknir upp síðasta sumar og samkvæmt heimildum DV var nokkur titringur í herbúðum Stöðvar 2 eftir að eigendur Reykjavík Ink voru grunaðir um aðild að sprengjuárásinni. DV óskaði eftir svörum frá Stöð 2 um hvort til greina hafi komið á einhverjum tímapunkti að hætta við sýningu þáttanna. Ekki bárust svör frá forsvarsmönnum stöðvarinnar.

Sjá einnig: Fjórir í gæsluvarðhaldi og húsleitir á sjö stöðum

Í samtali við DV kveðst Hulda ekki lengur vera smeyk þó að henni hafi brugðið fyrst eftir að henni barst kröfubréfið. Aðspurð um hvenær krafan barst og hvað hún hefði langan tíma til að bregðast við svarar Hulda:

„Ég hafði frest til 10. desember. Mig minnir að ég hafi fengið hana í mínar hendur, 5. eða 6. desember. Ég man að ég hafði fjóra eða fimm daga til að ákveða hvernig ég myndi taka á málinu. Mér finnst ekki rökrétt að senda mér kröfubréf vegna þessara ummæla.“

Ætlar þú að biðjast afsökunar?

„Nei, mér dettur það ekki í hug né að taka upp veskið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Með og á móti: Lúpína

Með og á móti: Lúpína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“