Sérsveitin ræst út: Fjórir í gæsluvarðhaldi og húsleitir á sjö stöðum eftir sprengjuárás í Hafnarfirði

Tattoostríðið í borginni - málið sé til rannsóknar og litið alvarlegum augum

Aðfararnótt þriðjudags var tívolíbombu kastað inn um rúðu flúrstofunnar Immortal Art í Dalshrauni. Andartökum síðar sprakk sprengjan með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í húsnæðinu og allir innanstokksmunir gjöreyðilögðust. Árásin átti sér stað 1. nóvember. Í gær ræsti lögreglan út víkingasveitina og gerði húsleitir á sjö stöðum. Þá voru fimm handteknir í tengslum við málið.

Immortal Art hafði aðeins verið starfrækt í einn dag þegar að skemmdarverkið var innt af hendi. Í umfjöllun fjölmiðla um málið kom fram að eigendum stofunnar, Ólafíu og Andra, höfðu borist ítrekaðar hótanir undanfarnar vikur í aðdraganda opnunarinnar. Meint ástæða hótananna var sú að fæla eigendur Immortal Ink frá því að stofna fyrirtækið og þar með koma í veg fyrir samkeppni.

Sjá einnig: Ólafíu og Andra hótað ítrekað fyrir opnunina

Ólafía vann áður á annarri húðflúrstofu en ákvað fyrir nokkru að hætta og stofna sitt eigið fyrirtæki. Í tilefni af opnunni setti Immortal Art í gang Facebook-leik þar sem allir einstaklingar 18 ára eða eldri gátu skráð sig og unnið inneign á stofunni að andvirði 100 þúsund krónur.

Leikurinn hlaut fádæma góðar viðtökur en um 2.500 manns skráðu sig til leiks. Enn eru skráningar að berast, fjórum sólarhringum eftir að stofan brann til kaldra kola. Í kjölfar glæpsins tilkynnti lögreglan um að hún leitaði að minnsta kosti þriggja manna sem taldir voru bera ábyrgð á verknaðinum.

Fimm handteknir og húsleitir á sjö stöðum

Samkvæmt heimildum DV lítur lögreglan málið alvarlegum augum og vill senda skýr skilaboð um að hótanir og skemmdarverk af þessari stærðargráðu verði ekki liðin. Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í rannsóknardeild staðfestir í samtali við DV að málið sé til rannsóknar og litið alvarlegum augum.

Í samtali við DV segir Grímur:

„Við erum búin að vera með málið til rannsóknar frá 1. nóvember. Þá er kveikt í stofu í Hafnarfirði. Í tengslum við það handtókum við í gær samtals fimm manns. Það er búið að úrskurða fjóra í gæsluvarðhald.“

Þá gerði lögreglan húsleitir á sjö stöðum.

„Málið er núna bara í rannsókn. Þetta eru stóru atriðin í málinu. Nú erum við að vinna úr þessum gögnum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.