fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Ólafía og Andri segja alla söguna: „Viljum bara fá að vera í friði“

„Erum að reyna að hefja nýtt líf“ – Vilja kveða allar kjaftasögur í kútinn – Neita að gefast upp – Tvær sprengjuárásir og eitt innbrot

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 6. desember 2016 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég hafði fylgst með Ólafíu úr fjarlægð, en ég hef lengi haft áhuga á húðflúri og öllu sem því tengist. Ólafía er stórt númer í íslenska húðflúrheiminum og ég var alltaf skotinn í henni,“ segir Andri Már Engilbertsson í samtali við DV, aðspurður hvernig hann kynntist unnustu sinni, Ólafíu Kristjánsdóttur.

Ólafía og Andri hafa verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir að húðflúrstofa í þeirra eigu var gjöreyðilögð. Stofan sem heitir Immortal Art var í Hafnarfirði og átti að opna hana morguninn eftir, þann 1. nóvember. Það varð þó aldrei. Skömmu eftir miðnætti komu tveir menn á skellinöðru, stoppuðu hjá stofunni, brutu rúðu og köstuðu inn tívolíbombu með þeim afleiðingum að eldur kviknaði og innanstokksmunir gjöreyðilögðust. Í kjölfarið voru fimm handteknir en fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald en Hæstiréttur átti eftir að fella úrskurðinn úr gildi nokkrum dögum síðar.

Andri og Ólafía vilja ekki nafngreina fólkið sem þau telja að liggi undir grun. Þau ákváðu að stíga fram og segja alla söguna til að leiðrétta sögusagnir sem reynt hafi verið að koma af stað um að Ólafía hafi óhreint mjöl í pokahorninu.

Vilja fá að vera í friði

Ólafía og Andri hafa greint stuttlega frá því að þau hafi sætt hótunum í aðdraganda þess að opna átti stofuna. Þau settust niður með blaðamönnum DV til að segja alla söguna en þau stefna á að opna stofuna að nýju fljótlega.

„Við erum venjulegt fólk sem er með heiðarlegan rekstur og erum bara að reyna að hefja nýtt líf saman,“ segir Andri.

„Við viljum bara fá að vera í friði,“ bætir Ólafía við.

Hvernig kynntust þið?

„Ég hafði vitað af henni lengi. Hún er þekkt í faginu. Í fyrrasumar heyrði ég að hún væri hætt með kærastanum og við byrjuðum að pota í hvort annað á Instagram.“ Instagram er samskiptamiðill sem gengur út á að birta myndir við hin ýmsu tækifæri. „Eftir viku vorum við bæði farin að læka tveggja ára gamlar myndir. Það var bara verið að segja: Hei, ég er að tékka á þér. Það leið ekki langur tími þar til ég tók af skarið og sendi henni einkaskilaboð og vinabeiðni á sama tíma. Ég lét hana vita að mér þætti hún ótrúlega falleg, ég væri mikill aðdáandi verka hennar og langaði að kynnast henni betur.“

Í kjölfarið fóru þau út að borða og lagður var grunnur að sambandi. „Við smullum strax saman og það var lítið sofið næstu vikurnar.“

Hótað brottrekstri

Ólafía hafði unnið sem húðflúrari frá árinu 2011 við góðan orðstír. Á stofunni sem hún réð sig til fyrst voru engin leiðindi sem tekur að nefna. Þegar í ljós kom að hún var að hitta Andra varð fjandinn laus. Þetta var í byrjun sumars 2015. Kveðst Ólafía hafa verið hótað brottrekstri ef hún sliti ekki sambandi sínu við Andra. „Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég var mjög skotin í honum og vildi ekki hætta þessu. Ég var mjög ringluð.“

Andri segir að rétt áður en Ólafía lokaði á hann vegna hræðslu hefði Andri nýlega verið búinn að bjóða henni í dekur í Bláa lóninu.

„Hún hafði verið mjög spennt. Ég var að keppa í lyftingum þessa helgi og hún að vinna. Ég heyrði ekkert frá henni og ég fann á mér að eitthvað væri að. Ég heyrði ekki frá henni en ég vildi ekki vera að ýta á hana.“

Loks fékk Andri skilaboð. Hann starði á skjáinn í lengri tíma og skildi hvorki upp né niður í því sem var að gerast.

„Því miður kemst ég ekki í Bláa lónið á morgun. Mér þykir það mjög leiðinlegt. Ég þarf smá tíma til að hugsa.“ Andri bætir við: „Á þessum tímapunkti var búið að hóta því að hún myndi missa lífsviðurværið. Hún var bara hrædd og þorði ekki annað en að hlýða.“

Daginn eftir hitti Andri Ólafíu fyrir tilviljun fyrir utan World Class. Hann hafði farið þangað til að fá útrás fyrir tilfinningar sínar og áttaði sig ekki á því sem var að eiga sér stað.

„Ég vissi að ákvörðunin var ekki hennar. Það var eitthvað einkennilegt við þetta allt saman. Síðan hitti ég hana þarna fyrir utan í sólinni, um hásumar.“

Þau settust saman á bekk fyrir utan Laugar og ræddu saman í rúma tvo tíma. Reyndi Andri að sannfæra Ólafíu um að það væri verið að eitra fyrir sambandi þeirra.

„Hún vissi ekki hvað hún átti að gera en ég sagði henni að hún gæti fengið vinnu hvar sem er. Hún var ringluð enda búin að vera þarna lengi og skildi ekki af hverju þau hefðu allt í einu snúist gegn henni.“

Ólafía kveðst hafa reynt að ræða málin við annan eigenda stofunnar og þá hafi henni borist skeyti frá öðrum aðila tengdum stofunni. Þar stóð:

„Þú mátt drepast í helvíti annskotans svikari“.

Í kjölfarið segir Ólafía að hún hafi verið neydd til að fjarlæga Andra af Facebook, Snapchat og Instagram. Á þessum tímapunkti byrjaði Ólafía að hugsa um að færa sig um set.

„Ég var bara mjög hrædd og á þessum tímapunkti fer ég alvarlega að spá í það að hætta en mér finnst ég ekki geta það, því ég var með bókaða kúnna langt fram í tímann. Þetta er í september 2015 og þarna er ég kominn til sálfræðings sem stappar í mig stálinu og segir að ég verði að hætta. Ólafía hefur áður tjáð sig um þennan þátt á Facebook:

„Meðal annars hefur verið sagt „Brjóta á mér hendurnar, stinga mig í andlitið og láta mig lenda í sjúkrabíl.“ Sagt við mig að ég væri „lítil og ljót sveitastelpa sem væri ekkert án þeirra“,“ sagði Ólafía í færslu sinni og bætti við að höfðu samráði við sálfræðing og fjölskyldu sína hefði hún ákveðið að fjarlægja sig frá fólkinu.

Ólafía ákvað ásamt samstarfsfélaga að róa á önnur mið og leita fyrir sér með vinnu á öðrum húðflúrstofum. Segir hún vinnuveitendur hafa komist að því og í kjölfarið boðað til fundar þar sem hún segir að þau hafi verið borin þungum sökum. Stuttu eftir að þessi fundur var haldinn var nýr starfskraftur fenginn í afgreiðslu.

„Það reyndu allir að vera hressir og kátir fyrir hana. Þetta er í september á síðasta ári. Í október fóru þau til útlanda og þá fæ ég símtal og er beðin um að taka lykla af stúlkunni því búið væri að segja henni upp störfum. Ég spurði stúlkuna sem var gráti næst, hvað væri í gangi. „Þá var hún látin fara vegna þess að hún hafði, löngu áður en hún var ráðin, verið að hitta mann sem þau sögðu að væri óvinur þeirra. Þarna fékk ég nóg og setti áætlun í gang í samvinnu við sálfræðinginn minn. Ég planaði að vinna út desember og klára alla mína kúnna sem áttu pantað hjá mér.“

  1. desember tók Ólafía saman dótið sitt og gekk út. Sálfræðingurinn ráðlagði Ólafíu að tilkynna um uppsögn sína með tölvupósti. Ólafía sem er ættuð frá Ísafirði fór vestur um jólin. Í febrúar fór hún aftur til höfuðborgarinnar.

„Mamma og sálfræðingurinn töldu að það væri sniðugt að ég færi á sjálfsstyrkingarnámskeið. Síðan var ég að æfa líkamsrækt og var reynt að koma í veg fyrir að ég mætti mæta þangað. Svo varð ég að skipta um hárgreiðslustofu vegna þess að eigandi hennar og minn fyrrverandi vinnuveitandi voru vinir. Ég mátti ekki fara þangað aftur.“

Í febrúar safnaði Ólafía kjarki og byrjaði að sækja um á öðrum húðflúrstofum. „Eigendur annarrar stofu vildu ráða mig og ég var í skýjunum. Daginn eftir var þeim hótað að það yrði kveikt í hjá þeim ef ég yrði ráðin.“

Ólafía segir að daginn eftir það hafi hún fengið símhringingu frá Securitas. Þá var búið að brjótast inn hjá henni. Ólafía var stödd á líkamsræktaræfingu skammt frá og hljóp í ofboði heim.

„Það var búið að brjóta klósettið og það var vatn úti um allt. Dótið mitt var eyðilagt, sjónvarpið. Þetta var ekki rán, það átti bara að skemma enda var ekkert tekið. Það hefði örugglega verið skemmt meira ef ég hefði ekki verið með öryggiskerfi en það var búið að rífa það af veggnum og grýta því í klósettið. Eftir þetta þorði enginn að ráða mig í vinnu.“

Fyrsta sprengjan

Ólafía ákvað að eyða páskunum vestur á fjörðum. Hún hafði dvalið þar í einn sólarhring þegar búið var að gera alvarlega atlögu að henni. Sprengjan var þannig útbúin að hún var límd við gluggann og krafturinn var slíkur að allur glugginn sprakk inn í íbúðina.

„Það voru stór glerbrot á rúminu hjá henni. Þetta var tilraun til manndráps og hún hefði stórslasast ef hún hefði verið heima,“ segir Andri.

„Það vissi enginn hvort ég var heima eða ekki. En það er á þessum tímapunkti sem við Andri förum að tala aftur saman. Ég er mikið erlendis næstu mánuði, því ég vildi komast í burtu en við hittumst alltaf þegar ég kom til landsins og við byrjuðum fljótlega saman.“

Opna stofu

Það var svo núna í september sem Andri og Ólafía ákváðu að opna stofu. Sú ákvörðun var tekin eftir að þau gáfust upp á að reyna sækja um vinnu fyrir hana á öðrum húðflúrstofum í höfuðborginni.

„Það leit út fyrir að þetta myndi ganga eins og í sögu. Við fengum öll leyfi og fundum draumahúsnæði. Við keyptum nýjar græjur og hengdum málverkin upp á vegg. En sirka tíu dögum fyrir opnun heyri ég utan úr bæ að það eigi að skemma allt fyrir okkur.“

Kveðst Andri hafa með aðstoð komist í samband við mann sem þekkir vel til í undirheimunum. Markmiðið var að skýra þeirra hlið og þau vildu aðeins fá að starfa í friði. Sá fundur var stuttur og engin niðurstaða fékkst í málið. Tíu dögum síðar boðaði maðurinn Andra á annan fund, nánar tiltekið 20. október síðastliðinn. Fór sá fundur fram í Bakarameistaranum í Kópavogi.

„Þar taldi ég að ég væri að hitta einn mann. Þegar þangað var komið var mér sagt að annar maður vildi ræða við mig. Þeir komu svo þrír inn og ég sat þarna við borðið með þeim fjórum. Hann segir við mig yfirvegaður án nokkurra láta: „Við ætlum að hafa þetta stutt, þetta er ekki flókið. Ólafía flúrar aldrei á Íslandi. Hún sveik fjölskylduna mína og þetta stoppar strax.“

Segir Andri að félagi mannsins hafi þá tekið til máls og sagt að hennar fyrri vinnuveitendur hafi keypt fyrir hana íbúð, bíl og fleira. Í samtali við DV segir Andri:

„Það er ekki rétt. Hún keypti þetta sjálf. Þetta eru lygar og það var verið að reyna skemma hennar mannorð og það tekur því varla að hrekja allar þessar fáránlegu ásakanir.“

Ólafía bætir við:

„Ég átti líka að hafa brotist inn á stofuna og breytt aðgangsorði að Facebook-síðunni minni. Eina sem ég gerði var að ég tók út sem stjórnanda þann sem vann í afgreiðslu á húðflúrstofunni þar sem ég hafði búið síðuna til í mínu nafni út frá minni persónulegu Facebook-síðu. Á endanum ákváðum við að eyða síðunni og slíta þannig á alla strengi og búa til nýja.“

Andri fékk nóg af tilhæfulausum ásökunum og sagði:

„Strákar, þetta er konan mín. Þetta er ekki okkar hlið á þessu máli. Nú hef ég heyrt ykkar hlið.“

Eftir það leystist fundurinn upp. Í kjölfarið lét Andri lögreglu vita af fundinum í bakaríinu. Þá var búið að kæra bæði innbrotið á heimili Ólafíu og fyrri sprengjuárásina. Lögreglan tók málið alvarlega og ákvað að fylgjast með framvindunni. Upptökuvélum var komið upp beint á móti húðflúrstofunni til að fylgjast með mannaferðum.

Tilhlökkun – draumur verður að martröð

Þann 31. október var Immortal Art tilbúin fyrir opnun. Falleg málverk á veggjum. Ný tæki til að vinna með. Andri og Ólafía höfðu staðið fyrir leik á Facebook þar sem í boði var ókeypis húðflúr og aðdáendum síðunnar fjölgaði ört. Andri og Ólafíu lögðust glöð upp í rúm. Stóri dagurinn var fram undan.

Klukkan 01.44 hringdi sími Andra.

Það var búið að kasta sprengju inn í stofuna.

„Okkur leið ömurlega,“ segir Ólafía.

„Við fórum upp eftir í rusli og áfallið var gríðarlegt. Draumarnir skyndilega á bak og burt.“

Næstu dagar voru erfiðir.

„Það tók við mikil sorg, síðan þurftum við að ganga í gegnum tryggingaferli. Við lögðum fram kærur og við vitum eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að málið var litið alvarlegum augum.“

DV fjallaði áður um aðgerðir lögreglu sem voru samhæfðar og framkvæmd húsleit á sjö stöðum. Þá kom fram í frétt DV að eigendur Reykjavík Ink, Össur Hafþórsson og Linda Mjöll Þorsteinsdóttir, hefðu verið handteknir ásamt Kristens Kristenssyni og Sævari Hilmarssyni. Voru þau úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald grunuð um aðild að sprengjuárásinni. Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurðinn og var þeim sleppt.

Framtíðin björt

Eftir allt sem á undan er gengið hafa Andri og Ólafía fundið fyrir gríðarlegum stuðningi. Múrarameistarar, rafvirkjar og píparar hafa boðist til að gefa vinnu sína og það styttist í að Immortal Art verði opnuð.

„Við erum reyna að hefja líf okkar saman og hún er að reyna skilja þetta fólk eftir. Við viljum bara fá að gera það sem við elskum. Þetta eru okkar heiðarlegu peningar, allt er uppi á yfirborðinu og það kemur enginn annar nálægt okkar rekstri.

Við erum venjulegt fólk. Ólafía er heiðarleg manneskja sem hefur þrælað fyrir sínu og við viljum kveða allar kjaftasögur í kútinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Andri Már varð fyrir alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu – „Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg“

Andri Már varð fyrir alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu – „Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Hera Björk fallin niður í 27. sætið – Litlu má muna að lagið komist í aðalkeppnina

Hera Björk fallin niður í 27. sætið – Litlu má muna að lagið komist í aðalkeppnina