fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Sjö ár sem þrotamaður í skuldafangelsi kröfuhafa

Skiptum ekki enn lokið á búi Magnúsar Þorsteinssonar – Gagnrýnir seinagang – Skiptastjórinn segir hilla í lokin

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 18. maí 2016 07:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það þarf að breyta gjaldþrotalögum og setja skiptastjóra tímamörk til að svona óhæfa geti ekki viðgengist,“ segir athafnamaðurinn Magnús Þorsteinsson, sem enn situr í skuldafangelsi kröfuhafa rúmlega sjö árum eftir að hann var úrskurðaður gjaldþrota. Gjaldþrotaskiptum á þrotabúi Magnúsar er ekki enn lokið og má telja víst að sá tími sem farið hefur í skiptalokin sé Íslandsmet. Skiptastjórinn telur þó að málið hafi ekki tekið of langan tíma en viðurkennir að nú hilli undir lok málsins. Samþykktar kröfur í bú Magnúsar nema á þriðja tug milljarða króna.

Félagið sem felldi Magnús

Það var þann 4. maí 2009 sem Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði Magnús gjaldþrota að kröfu Straums-Burðaráss og skipaði lögmanninn Ingvar Þóroddsson á Akureyri sem skiptastjóra. Forsaga þess var að fjárfestingafélagið BOM ehf. tók tæplega 1.200 milljóna króna lán hjá bankanum til þess að kaupa hlut í Icelandic Group árið 2005. Magnús keypti BOM árið 2007 og skrifaði undir sjálfskuldarábyrgð upp á 930 milljónir króna í tengslum við þau viðskipti.

BOM fjárfestingar ehf. var úrskurðað gjaldþrota 16. mars 2012 og lauk skiptum á þrotabúi félagsins í júní sama ár með því að ekkert fékkst upp í lýstar kröfur sem námu tæpum 2,7 milljörðum. Félagið átti meðal annars 3,7 prósenta hlut í Icelandic Group sem Magnús var um tíma stór hluthafi í. Í Morgunblaðinu var BOM ehf. kallað félagið sem setti Magnús í þrot vegna þess að það var vegna láns til þess félags sem Straumur-Burðarás krafðist gjaldþrotaskipta yfir honum.

En þó að Magnús hafi verið úrskurðaður gjaldþrota, rúmum þremur árum áður en skiptum lauk á þrotabúi BOM, þá hafa skipti á búi Magnúsar dregist fram úr hófi og er ekki enn lokið.

Þarf að gera gæðakröfur

DV fjallaði um málið í október síðastliðnum þar sem Magnús gagnrýndi hægaganginn harðlega og notaði þá líkingu að hann væri búinn að vera í skuldafangelsi í hátt í sjö ár.

Í samtali við DV nú segir Magnús að það verði að koma böndum á þessi mál svo þau dragist ekki endalaust. „Einhverjar gæðakröfur verður að gera til þeirra sem héraðsdómur velur til svona verka, ekki bara næsta nafn af lista.“

Ekki of langur tími

Skiptastjórinn, Ingvar Þóroddsson, sagði í samtali við DV í október að skýringin væri að gjaldþrotaskiptin væru mjög umfangsmikil, flækjustigið hátt og málið teygði anga sína víða erlendis.

Í samtali við DV nú, sjö mánuðum síðar, segir Ingvar að það sé rétt að skiptunum sé ekki lokið en málið mjakist áfram.

„Það er svona farið að hilla undir lok á þessu en það er ekki hægt að segja endanlega dagsetningu hvenær það verður. Það er búið að selja eign sem var erlendis og verið að bíða eftir ákveðnum hlutum sem þarf að ganga frá í því sambandi.“

Gjaldþrotið virðist vissulega vera stórt, en samþykktar kröfur nema að sögn Ingvars vel ríflega 20 milljörðum króna sem myndi gera það að líkast til næststærsta persónulega gjaldþroti Íslandssögunnar. En hefur þetta, þrátt fyrir það, ekki tekið allt of langan tíma?

„Nei, það finnst mér ekki. Ekki miðað við þetta umfang og hvernig þetta tengist ýmsum erlendum ríkjum. Þá er þetta tímafrekt. Þetta er stórt gjaldþrot og kröfuhafarnir vilja gera allt sem hægt er til að reyna að endurheimta eitthvað. En þetta mjakast, það má segja það.“

Þrotamaður í áratug?

Eins og fram kom í umfjöllun DV um málið í október síðastliðnum þá er sá tími sem uppgjör á þrotabúi tekur eitt. Við þann tíma bætast síðan alltaf tvö ár hið minnsta eftir skiptalok. Ástæðan er sú að skuldir sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti fyrnast á tveimur árum frá skiptalokum. Ef fyrning er ekki rofin með viðurkenningardómi falla allar skuldir, sem ekki fengust greiddar við gjaldþrotaskipti, niður að liðnum tveimur árum. En þar sem skiptum á búi Magnúsar er ekki enn lokið, rúmum sjö árum frá gjaldþroti hans, þýðir það að fyrningarfresturinn er ekki enn farinn að telja. Það gerir það að verkum að þó að skiptum ljúki á morgun er ljóst að hann verður ekki laus úr viðjum síns persónulega gjaldþrots fyrr en hátt í áratug eftir að til þess kom. Skiljanlega talar Magnús því um skuldafangelsi.

Umsvifamikill í útrásinni

Umsvifamikill í útrásinni

Magnús er líklega þekktastur sem viðskiptafélagi feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors en þeir stofnuðu drykkjarvöruverksmiðjuna Bravo Brewery í St. Pétursborg í Rússlandi. Í ársbyrjun 2002 keypti Heineken-bjórframleiðandinn verksmiðjuna á 400 milljónir dala. Björgólfsfeðgar og Magnús sneru síðan vellauðugir aftur til Íslands sem Samson-hópurinn og keyptu kjölfestuhlut í Landsbankanum.

Magnús átti einnig stóran hlut í Icelandic Group og var aðaleigandi Avion Group, sem meðal annars átti Eimskip. Magnús var því einn umsvifamesti fjárfestir á Íslandi fyrir hrun, en líka sá fyrsti hinna svokölluðu útrásarvíkinga til að vera úrskurðaður persónulega gjaldþrota.

Nokkrum mánuðum síðar, á árinu 2009, var viðskiptafélagi hans, Björgólfur Guðmundsson, úrskurðaður gjaldþrota. En skiptum á þrotabúi Björgólfs lauk þann 27. maí 2014, tæpum fimm árum eftir gjaldþrot. Lýstar kröfur í bú hans námu 85 milljörðum króna og er talað um það sem stærsta persónulega gjaldþrot Íslandssögunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“