fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Vissir þú þetta um Bernie Sanders?

Í september höfðu 650 þúsund bandarískir ríkisborgarar lagt kosningaherferð Bernie Sanders lið

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 9. febrúar 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sósíalistinn Bernie Sanders hefur sótt mjög á Hillary Clinton í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Sanders, sem kaus gegn Íraksstríðinu og talar fyrir ókeypis heilbrigðisþjónustu og snarhækkuðum lágmarkslaunum, nýtur yfirburðafylgis þegar kemur að yngri kjósendunum. Hillary hefur enn yfirhöndina í flestum skoðanakönnunum en Sanders virðist ætla að gera alvöru atlögu að því að verða forsetaefni Demókrataflokksins. Hér eru nokkrar staðreyndir um þennan óvænta keppinaut Hillary.

Hefur meiri stuðning en Obama

Í september höfðu 650 þúsund bandarískir ríkisborgarar lagt kosningaherferð Bernie Sanders lið. Það eru tvöfalt fleiri stuðningsaðilar en Barack Obama Bandaríkjaforseti hafði á sama tímapunkti 2007, áður en hann hlaut kjör.


Vill skattleggja mengun

„Það að afstýra yfirvofandi umhverfishörmungum mun krefjast þess að stórlega verði dregið úr brennslu á kolum, olíu og öðru jarðefnaeldsneyti,“ skrifaði Sanders í Huffington Post árið 2014. Þar birtist sú skoðun hans að kolefnisskattur væri áhrifaríkasta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.


„Lýðræðislegur sósíalisti“

Sanders leggur mikla áherslu á stéttabaráttu. Hann talar gegn misskiptingu og kúgun og heggur sérstaklega til þeirra ríkustu. Auðsöfnun þeirra valdi því að miðstéttin eigi ekki fyrir reikningum. Bilið milli ríkra og fátækra hafi aldrei verið meira. Hann vill að háskólamenntun verði ókeypis og að allir hafi aðgang að ókeypis heilbrigðisþjónustu. Þá vill hann taka betur á móti innflytjendum og hefur beitt sér fyrir umhverfismálum. Hann kallar sig lýðræðislegan sósíalista.


Yrði sá elsti

Sanders verður 75 ára í nóvember. Ronald Reagan er sá Bandaríkjaforseti sem elstur hefur verið kjörinn forseti. Hann var 69 ára. Þannig yrði Sanders elsti kjörni forseti í sögu landsins. Þess má reyndar geta að Hillary Clinton verður 69 ára þegar kjördagur rennur upp.


Fyrsti gyðingurinn

Sanders verður fyrsti gyðingurinn í embætti forseta Bandaríkjanna, nái hann kjöri. Gyðingur hefur heldur ekki gegnt stöðu varaforseta. Eini gyðingurinn sem fram að þessu hefur látið að sér kveða í forsetakosningum er Joe Lieberman, varaforsetaefni Al Gore árið 2000.


Kaus gegn Íraksstríðinu

Sanders hefur talað fyrir því að dregið verði úr fjárútlátum til hernaðar og peningunum þess í stað varið í heilbrigðisþjónustu. Sanders kaus á sínum tíma gegn innrás í Írak og hefur sagt að stríðið sé ein verstu mistök í utanríkisstefnu Bandaríkjanna.


Slakur námsmaður

Deildarforseti hjá University of Chicago, þar sem Sanders var virkur aðgerðasinni, lagði eitt sinn til að hann tæki sér hlé frá námi. Sanders segist hafa verið slakur námsmaður og að hann hafi lært meira á skólalóðinni en hann gerði í kennslustofunni.


Vill meðalveginn

„Byssur í Vermont eru ekki það sama og byssur í Chicago eða í Los Angeles,“ hefur Sanders sagt um byssueign. Í Vermont séu þær notaðar til veiða á meðan þær séu í Chicago notaðar af ungmennum sem drepa önnur ungmenni – eða til að skjóta lögreglumenn. Hann vill að mæst sé á miðri leið þegar kemur að deilunni um skotvopnaeign.


Aftarlega í peningakapphlaupinu

Sanders hefur aðeins safnað helmingi þess fjár sem framboð Hillary Clinton hefur aflað í kosningabaráttunni. Hillary Clinton hefur safnað 163,5 milljónum dollara, svipaðri upphæð og Jeb Bush. Framboð Sanders hefur safnað 75,1 milljón dollara og er hann fimmti í röðinni. Þess má geta að Bernie hefur hafnað framlögum frá Super-PAC, eða ofur-nefndum, sem eru nefndir sem starfa óháð flokkum eða einstökum frambjóðendum og þurfa ekki að lúta lögum og reglum um hámarksframlög.


Maður verkalýðsfélaganna

Þegar horft er til áranna 2009–2014 eru verkalýðsfélög í átta af níu efstu sætunum hvað fjárstuðning varðar. Samtökin Sheet Metal Workers lögðu mest af mörkum eða 27.500 dollara, en það eru samtök verkafólks í málmþynnuiðnaði.


Vanur að tapa

Sanders hefur tapað nokkrum þýðingarmiklum kosningum á ævinni. Þar af voru nokkrar á árunum áður en hann náði kjöri sem bæjarstjóri í Burlington, embætti sem hann gegndi yfir fjögur tveggja ára kjörtímabil. Frá því hann tapaði kjöri til formanns bekkjarráðs í framhaldsskóla á sjötta áratugnum, hefur Sanders tapað sex kosningum.


20 ár á þingi

Sanders hefur verið öldungadeildarþingmaður í meira en 20 ár, sem fulltrúi Vermont. Hann var óháður þingmaður þar til í fyrra þegar hann gekk til liðs við demókrata.


Afglæpavæðing

Sanders er hlynntur afglæpavæðingu fíkniefna og hefur gefið út yfirlýsingu um lögleiðingu kannabis.


Góður ræðumaður

Sanders hefur vakið athygli fyrir öflugar ræður og góða framsetningu. Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því, eftir fyrstu kappræður frambjóðenda demókrata, að Bernie Sanders hafi minnst allra tafsað á orðunum, eða mismælt sig. Einn frambjóðandi, Lincoln Chafee, tafsaði reyndar lítið eitt minna, en það var vegna þess að hann talaði miklu skemur.


Var handtekinn

Frambjóðandinn barðist ötullega fyrir borgaralegum réttindum á sínum yngri árum. Árið 1963 var hann handtekinn, á baráttufundi gegn aðskilnaði kynþátta í skólum landsins, í Chicago. Sanders er gyðingur eins og áður segir, fæddur í Bandaríkjunum. Faðir hans var innflytjandi frá Póllandi en fjölskyldan lést í helförinni.


Höfðar til ungu kynslóðarinnar

Hillary Clinton vann slaginn um Iowa með minnsta mun, öllum að óvörum. Sanders nýtur yfirburðastuðnings á meðal ungra demókrata. Stuðningur kjósenda undir þrítugu við Sanders reyndist 84% í Iowa, á meðan Clinton fékk 14%. Í aldurshópnum 30 til 44 ára vann hann Clinton með 58% á móti 37% atkvæða. Á meðal eldri kjósenda snýst dæmið algjörlega við.


Þrjú frumvörp í gegn

Andstæðingar Sanders hafa fullyrt að hann hafi aldrei á ferli sínum komið frumvarpi í gegnum þingið. Þetta er ekki rétt. Árin 2006, 2013 og 2014 urðu lagafrumvörp sem hann lagði fram að lögum. Hann var að auki meðflutningsmaður yfir 200 frumvarpa sem orðið hafa að lögum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki