Vodafone kaupir 365 miðla: Verðið er 2,2 milljarðar króna

Kaupverðið lækkar um 1,2 milljarða miðað við tilkynningu í ágúst

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fjarskipti hf. og 365 miðlar hf. hafa komist að samkomulagi um kaupverð Fjarskipta á rekstri og eignum 365. Þetta kemur fram í tilkynningu Vodafone til Kauphallarinnar.

Þann 31. ágúst sl. var tilkynnt um fyrirhuguð kaup Fjarskipta á eignum og rekstri ljósvakamiðla og fjarskiptaþjónustu 365 miðla, með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar sem nú er á lokastigi.

Athygli vekur að upphæðin sem um ræðir er 1,2 milljörðum lægri en áætlað var þegar tilkynnt var um fyrirhuguð kaup í ágúst. Þá kom fram að áætlað kaupverð væri 3,4 milljarðar.

Í tilkynningu Vodafone kemur fram að aðilar hafi náð nýju samkomulagi um kaupverð á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga úr fyrrgreindri áreiðanleikakönnun og áframhald einkaviðræðna. Mun kaupverðið nema 2,2 milljörðum króna.

„Það er mat aðila að hagnaður Fjarskipta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) af ljósvaka- og fjarskiptastarfsemi 365 miðla, að viðbættum samlegðaráhrifum, geti numið u.þ.b. 1.600 milljónum króna á ársgrundvelli auk annarra jákvæðra áhrifa á frjálst sjóðsflæði Fjarskipta,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að kaupverð miðað við framangreint verður 2.200 milljónir króna sem verða greiddar annars vegar með 32.380.952 hlutum í Fjarskiptum á genginu 52,50 kr. á hlut, og hins vegar 500 milljónum króna með reiðufé. Þá munu Fjarskipti yfirtaka vaxtaberandi skuldir að fjárhæð 4,6 milljörðum króna. Kaupin eru enn háð skilyrðum og forsendum sem útfærð verða nánar í kaupsamningi aðila.

„Ofangreint samkomulag um breytt kaupverð greiðir fyrir kaupsamningsgerð, sem stefnt er að því að ljúki á fyrstu vikum nýs árs. Áfram er því ráðgert að ganga frá kaupunum um mitt ár 2017, að fengnu samþykki viðkomandi eftirlits- og hagsmunaaðila. Nánar verður gert grein fyrir forsendum viðskiptanna þegar kaupsamningur liggur fyrir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.