Jóhann Berg Guðmundsson kantmaður BUrnley verður aðalviðtalsefnið í næsta þætti af Fyrir Ísland sem er á dagskrá á Stöð 2 á mánudagskvöldum klukkan 20.05.
Guðmundur Benediktsson sem stýrir þættinum heimsótti Jóhann í janúar og fór meðal annars á leik liðsins gegn Manchester United á Turf Moor. Þar vann United 0-1 sigur með marki frá Anthony Martial.
„Ég er að spila í skemmtilegustu deild í heimi og á þeim stað sem ég vildi komast á. En, auðvitað vill maður alltaf meira,“ segir Jóhann Berg við Guðmund í langri klippu sem var birt í dag.
Jóhann kom til Englands sumarið 2014 og gekk þá í raðir Charlton, umboðsmaður hans reyndist sannspár því tveimur árum seinna fór hann í ensku úrvalsdeildina.
„Umboðsmaðurinn minn sagði alltaf við mig að ég þyrfti að taka tvö góð tímabil í B-deildinni og þá ætti ég séns á að komast í úrvalsdeildina. Það gekk eftir en það þýðir ekki að ég sé saddur. Maður vill alltaf meira.“
Um er að ræða bílferð þeirra á leið í leikinn gegn United sem ekki verður sýnt í þættinum.