Arsenal tekur á móti Burnley í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn næsta en leikurinn hefst klukkan 15:30.
Þetta verður síðasti heimaleikur Arsene Wenger, stjóra liðsins með Arsenal en hann mun hætta þegar tímabilinu lýkur.
Jóhann Berg Guðmundsson, sóknarmaður Burnley vonast til þess að geta skemmt kveðjupartý Wenger með sigri á laugardaginn.
„Hann er frábær stjóri, síðustu ár hafa eflaust ekki gengið jafn vel og hann hafði vonað en hann hefur gert ótrúlega hluti fyrir deildina og Arsenal, undanfarin ár,“ sagði Jóhann.
„Það verður frábær stemning á vellinum enda síðasti heimaleikur hans með liðið. Það verður gaman að spila þennan leik og það er mikil spenna hjá okkur.“
„Við ætlum okkur hins vegar að ná í úrslit úr þessum leik,“ sagði Jóhann að lokum.