Liverpool tók á móti Roma í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld en leiknum lauk með 5-2 sigri heimamanna.
Það voru þeir Mohamed Salah, Sadio Mane og Roberto Firmino sem skoruðu mörk heimamanna í kvöld en Edin Dzeko og Diego Perotti skoruðu mörkin fyrir Rómverja.
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool var sáttur með spilamennsku sinna manna í kvöld en ósáttur með að fá á sig tvö mörk undir lok leiksins.
„Við vorum fullkomnir í 80. mínútur. Við gerðum ein mistök, varnarlega og vítaspyrnan sem þeir fá var aldrei vítaspyrna,“ sagði Klopp.
„Staðan er 5-2 í einvíginu, ég hefði að sjálfsögðu verið sáttur með 5-0 eða 5-1 en 5-2 eru frábær úrslit. Núna förum við til Ítalíu og leggjum allt í sölurnar.“
„Við vorum að taka frábær hlaup í kvöld og það breytti þessu leik. Þeir réðu illa við okkur, við skoruðum frábær mörk og hefðum átt að skora fleiri. Það var margt jákvætt í okkar leik en ég er ekkert sérstaklega jákvæður núna því við fáum á okkur tvö ódýr mörk.“
„Ég verð betri og jákvæðari á morgun og þetta eru miklu betri úrslit en hægt var að búast við, fyrir leikinn,“ sagði stjórinn að lokum.