Manchester United og Tottenham mættust í undanúrslitum FA-bikarsins í dag en leiknum lauk með 2-1 sigri United.
Dele Alli kom Tottenham yfir snemma leiks en Alexis Sanchez jafnaði metin fyrir United og staðan því 1-1 í hálfleik.
Það var svo Ander Herrera sem skoraði sigurmark leiksins á 62. mínútu og United fer því áfram í úrslit keppninnar en Tottenham er úr leik.
Mauricio Pochettino, stjóri Tottenham var gríðarlega svekktur með að falla úr leik í bikarnum.
„Það er alltaf slæmt að tapa en sumir ósigrar svíða meira. Auðvitað er ég svekktur að komast ekki í úrslitaleikinn, við vorum nálægt þessu en samt ekki,“ sagði stjórinn.
„Við gáfum þeim leik en það var ekki nóg, við stjórnuðum hins vegar leiknum frá A til Ö í fyrri hálfleik. Þeir vörðust hins vegar vel og eiga hrós skilið. Ég er svekktur því við vorum nálægt þessu. Núna þurfum við bara að klára tímabilið almennilega og tryggja Meistaradeildarsæti.“
„Fólk þarf aðeins að átta sig á því hvaðan við komum þegar að það talar um að við þurfum að fara vinna titla. Að vinna titil þegar að þú ert að keppa við lið eins og United, Chelsea og City er ekki auðvelt en við gefum þeim alltaf leik,“ sagði stjórinn að lokum.