Manchester United og Tottenham mættust í undanúrslitum FA-bikarsins í dag en leiknum lauk með 2-1 sigri United.
Dele Alli kom Tottenham yfir snemma leiks en Alexis Sanchez jafnaði metin fyrir United og staðan því 1-1 í hálfleik.
Það var svo Ander Herrera sem skoraði sigurmark leiksins á 62. mínútu og United fer því áfram í úrslit keppninnar en Tottenham er úr leik.
Jose Mourinho, stjóri United var sáttur með að vera kominn í úrslit enska FA-bikarsins.
„Við áttum sigurinn skilinn. Við borum betri í dag og þótt að þeir hafi verið meira með boltann þá stjórnuðum við þessum leik alltaf,“ sagði stjórinn.
„Eftir að þeir skora þá misstum við aðeins stjórnina og ég ræddi það við leikmenn mína í hálfleik. Við vorum seinir út í seinni hálfleikinn því það var mikið sem við ræddum. Við vorum skipulagðari og héldum skipulaginu allan tímann.“
„Ég spyr mig oft af hverju það er verið að gagnrýna okkur svona mikið. Við erum að öllum líkindum að fara enda í öðru sæti deildarinnar sem er frábær árangur ef við horfum á liðin sem spila í þessari deild. Liðið var ekki nálægt því að enda í öðru sæti deildarinnar fyrir nokkrum árum síðan.“
„Við erum að spila fjórða úrslitaleikinn okkar á þremur árum. Kannski er verið að gagnrýna okkur of mikið,“ sagði stjórinn að lokum.