Mörg okkar sofa of lítið. Langir vinnudagar, barnauppeldi, stress, snjallsíminn, sjónvarpið og margt fleira koma á undan góðum nætursvefni á listanum. Samkvæmt Heilsuveru er svefnþörf fullorðinna 7 til 8 klukkustundir, hjá ungmennum og börnum enn lengri. Mörg okkar ná því ekki, og það er ekki hægt að safna upp og ætla að sofa meira um helgar eða á rauðu dögunum.
Svo eru það þeir sem sofa nær allan sólarhringinn sökum sjaldgæfs fyrirbæris sem kallað er Sleeping Beauty Syndrome eða Þyrnirósar-heilkennið.
Kleine-Levin heilkenni (KLS), einnig þekkt sem Þyrnirósarheilkenni (e. Sleeping Beauty Syndrome) eða ættgengt dvalaheilkenni (e. Familial Hibernation Syndrome), er taugasjúkdómur sem veldur því að sjúklingar sofa í langan tíma, allt að 16 til 20 klukkustundir á dag.
Rannsóknir benda til þess að KLS sé afar sjaldgæft ástand og komi fyrir hjá einum til fimm einstaklingum á hverja milljón. Hingað til hafa aðeins 500 tilfelli verið skráð í læknatímaritum.
Heilkennið er ein tegund lotubundinnar svefnröskunar. Heilkennið er mjög sjaldgæft og hrjáir helst unglinga og þá fremur stráka en stelpur, en 70% þeirra sem hafa heilkennið eru karlkyns, eins og segir á Vísindavefnum.
Heilkennið einkennist af endurteknum en afturkvæmum tímabilum af óhóflegum svefni, allt að 20 klukkustundir á sólarhring. Hvert kast stendur yfir í nokkra daga eða vikur í senn en á milli kasta geta liðið nokkrar vikur. Köstunum fylgir einnig ofát og löngun í óhollan mat, pirringur, barnaleg hegðun, vistarfirring (e. disorientation), ofskynjanir og sterk, óhamin kynhvöt á meðan einstaklingar eru vakandi.
Sérfræðingar segja að meirihluti þeirra sem greinast með KLS muni upplifa að meðaltali 20 köst á ævinni.
Einkenni KLS eru meðal annars:
Mikil syfja og vanhæfni til að halda sér vakandi
Aukin matarlyst
Þyngdaraukning
Aukin kynhvöt
Ofskynjanir
Breytingar á hegðun, þar á meðal pirringur og ringlun
Kvíði eða þunglyndi
Rugl eða minnisleysi
KLS köst geta komið skyndilega og aukið líkur á meiðslum ef sjúklingurinn ekur bifreið eða vélum, því er fólki með ástandið ráðlagt að vera heima í öruggu umhverfi meðan á köstum stendur.
Nákvæm orsök er óþekkt, en talið er að áðurnefnd einkenni gætu stafað af bilun í stúku (e. thalamus) og undirstúku (e. hypothalamus) í heila, en þau svæði stjórna svefni og matarlyst.
Það eru vangaveltur um að sjúkdómurinn, sem oft þróast eftir að fólk fær einkenni smitsjúkdóms, sé sjálfsofnæmisviðbrögð þar sem líkaminn ruglar heilavef saman við smit.
KLS getur verið kallað fram af:
Sýkingu
Neyslu vímuefna
Höfuðáverka
Líkamlegri áreynslu
Streitu
Minni á meðan á kastinu stendur er takmarkað. Sjúklingar geta hugsanlega borðað og notað salernið, en vegna mikillar þreytu eiga þeir í erfiðleikum með líkamlega virkni umfram þessa grunnhegðun. Eftir að hverju kasti lýkur verður hegðun einstaklings aftur venjuleg og sömuleiðis svefnrútínan.
Engin ákveðin meðferð er til við Kleine-Levin-heilkenninu og yfirleitt er ekki mælt með lyfjagjöf. Meðferð við KLS getur falið í sér lyf eins og litíum, stera í bláæð og/eða örvandi efni til að draga úr tíðni, lengd og alvarleika einkenna.
Meðferð er oft ráðlögð samhliða þessum meðferðum til að hjálpa sjúklingum að takast á við einkenni ofkynhneigðar, kvíða og þunglyndis.
Yfirleitt fækkar köstum og þau verða vægari á um það bil tólf árum.