Það er líklega erfitt ef ekki ómögulegt að setja einhvers konar mælikvarða á fyrirgefningu. Getur einhver fyrirgefið meira en aðrir? Fjölmiðlar og almenningur í Ástralíu virðast þó vera almennt sammála um að sjónvarpsviðtal sem sýnt var þar í landi síðastliðinn sunnudag hafi líklega falið í sér meiri fyrirgefningu en hafi sést áður þar í landi. Í viðtalinu var rætt við tvo menn. Föður og mann sem situr í fangelsi fyrir að hafa orðið þremur af börnum hans og frænku þeirra að bana. Faðirinn hafði raunar áður fyrirgefið manninum og ítrekaði það í viðtalinu en gekk nú skrefinu lengra og lýsti því yfir að fengi hann að ráða yrði manninum sleppt úr fangelsi.
Viðtalið var sýnt í fréttaskýringarþættinum Spotlight á sjónvapsstöðinni Seven News. Faðirinn, Danny Abdallah, hittir þar banamann barnanna, Samuel Davidson. Sá síðarnefndi var undir áhrifum áfengis og eiturlyfja þegar hann ók á hóp sjö barna í úthverfi Syndney árið 202o, sem voru á gangi á leiðinni til að kaupa sér ís. Fjögur barnnanna létust. Þetta voru þrjú börn Danny Abdallah sonurinn Antony, 13 ára og dæturnar Angelina 12 ára og Sienna 8 ára. Einnig beið Veronique Sakr 11 ára gömul frænka systkinanna bana.
Davidson var dæmdur í 20 ára fangelsi með möguleika á náðun eftir 15 ár. Abdallah og eiginkona hans og móðir systkinanna Leila höfðu áðr lýst því yfir opinberlega að þau hefðu fyrirgefið Davidson.
Í viðtalinu segir Abdallah að Davidson ætti með réttu að vera látinn laus en það getur í fyrsta lagi gerst eftir 10 ár.
Abdallah segir að eina réttlætið í málinu væri að fá börnin til baka og það breyti engu hversu langan dóm Davidson hafi fengið.
Davidson virðist hafa verið agndofa yfir góðmennsku Abdallah og segir hann vera einstakan mann. Hann tekur þó ekki undir að hann eigi að vera látinn laus:
„Nei, ég held að ég eigi það ekki skilið. Þetta var slys og ég ætlaði ekki að gera þetta en ég ber ábyrgð á þessu. Ég gerði þetta.“
Davidson segir að hann eigi ekkert skilið frá Abdallah og það sé hrein blessun að sá síðarnefndi hafi yfirhöfuð viljað tala við hann. Abdallah sé frábær manneskja og hann vilji vera eins og hann.
Aðspurður segist Davidson áður hafa beðið Abdallah fyrirgefningar en endurtók það í viðtalinu. Hann bað Abdallah, fjölskyldu hans og vini fyrirgefningar en einnig viðbragðsaðila og nágranna sem komu á vettvang daginn örlagaríka. Davidson sagðist iðrast innilega og myndi gera það til æviloka. Við þessu átti Abdallah stutt og laggott svar:
„Ég er nú þegar búinn að fyrirgefa þér. Þakka þér fyrir, bróðir.“
Mennirnir höfðu áður hist en Abdallah segir að þá hafi hann séð hversu mikil sektarkennd býr í brjósti Davidson:
„Ef ég hefði látið hann hafa byssu og sagt honum að skjóta þessi börn eða sjálfan sig hefði hann líklega sagt: Ég skýt sjálfan mig í staðinn.“
Abdallah segist þá hafa gert sér fyllilega grein fyrir að það skilaði engu að hatast út í Davidson.
Danny Abdallah hefur áður talað opinberlega um ákvörðun hans og eiginkonunnar Leila um að fyrirgefa Davidson en þau áttu alls sex börn áður en hörmungardagurinn skall á þeim árið 2020. Hann sagði í ræðu daginn sem viðtalið var sýnt ekki vilja að þau þrjú börn hans sem enn lifa upplifi reiði og þrá eftir hefnd. Hann segir að það hafi hjálpað sér að halda áfram með lífið að hitta Davidson. Abdallah segir að iðrun Davidson hafi einhver jákvæð áhrif á fjölskylduna en í þessu séu þó engir sigurvegarar. Mesta réttlætið væri að fá börnin aftur en það muni ekki gerast og því ætli þau fjölskyldan að reyna sem best að halda áfram með lífið.
Fullyrt er að samfangar Davidson hafi haft samband við Abdallah og sagt honum að til stæði að lúskra á banamanni barna hans en Abdallah hafi beðið þá um að gera það alls ekki. Abdallah er sagður einnig hafa heitið foreldrum Davidson því að hann muni styðja við bakið á honum þegar hann losnar úr fangelsi. Í viðtalinu lýsir hann því raunar yfir að eftir að hann losnar verði Davidson velkominn á heimili fjölskyldunnar.
Í viðtalinu má einnig sjá Abdallah og Davidson faðmast og biðja saman. Fréttamaðurinn Michael Meyer sem tók viðtalið segir í ítarlegri grein um það:
„Það sem við sáum var líklega meiri fyrirgefning en áður hefur verið skrásett í ástralskri sögu.“
Margir virðast vera sammála þessu en líklega verður ekki algjör einhugur um það frekar en nokkuð annað. Þetta einstaka sjónvarpsviðtal má sjá hér fyrir neðan: