Í leik liðanna í síðustu viku var áhorfandinn, hinn tvítugi Kavan Markwood, að fagna stigi hjá sínum mönnum í Pirates. Hann stökk upp úr sæti sínu og hélt sér í handrið fyrir framan á sama tíma en ekki vildi betur til en svo að hann kollsteyptist yfir handriðið og féll rúma sex metra niður.
Kavan var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús en hann hálsbrotnaði, viðbeinsbrotnaði auk þess sem bein í hrygg hans brotnaði.
Systir hans lýsti því í samtali við bandaríska fjölmiðla í gær að hann hefði þó tekið fyrstu skrefin eftir slysið.
„Að sjá hann á fótum og hreyfa sig var stór sigur og mikill léttir,“ sagði hún en bætti við að hann ætti enn „langt í land“ með að ná bata.