NBC News hefur þetta eftir fimm ónafngreindum heimildarmönnum. Fram kemur að stjórn Donald Trump sé komin svo langt í þessari vinnu sinni að byrjað sé að ræða við líbísku ríkisstjórnina.
Ef Líbíumenn taka við Palestínumönnunum, fá þeir aðgang að milljörðum Bandaríkjadala, sem þeir eiga en hafa verið frystir í Bandaríkjunum í rúmlega 10 ár.
Heimildarmennirnir lögðu áherslu á það við NBC News að endanleg ákvörðun um þetta hafi ekki enn verið tekin.
Trump hefur ítrekað látið í ljós ósk um að taka Gasa yfir og breyta þessu sundursprengda svæði Palestínumanna í ferðamannaparadís.
Í febrúar sagði hann að flytja þurfi tvær milljónir Palestínumanna frá Gasa til Jórdaníu og Egyptalands. Að því loknu eigi að enduruppbyggja Gasa og breyta í „rívíeru Miðausturlanda“.
Í tengslum við þessar hugmyndir sínar, hefur Trump nefnt að Bandaríkin gætu tekið yfir stjórn Gasa.
Hann hefur einnig gefið í skyn að Palestínumennirnir fái ekki að snúa aftur heim.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, er ánægður með tillögur Trump varðandi framtíð Gasa.
Hryðjuverkasamtökin Hamas, sem fara með völdin á Gasa, eru hins vegar ekki ánægð með tillögur Trump og segja Gasa ekki til sölu.
Bandarískir fjölmiðlar hafa áður skýrt frá því að stjórn Trump hafi sett sig í samband við Súdan og Sómalíu til að reyna að fá löndin til að taka við Palestínumönnum frá Gasa.