
Nokkuð hefur verið fjallað í breskum fjölmiðlum um skýrslu sem birt var í dag. Um er að ræða lokaskýrslu vegna rannsóknar, sem staðið hefur yfir í sjö ár, á manni sem var liðsmaður Írska lýðveldishersins (IRA) þegar óöldin mikla, „The Troubles“, geisaði á Norður-Írlandi, síðustu 30 ár 20. aldar, en var um leið uppljóstrari fyrir bresk yfirvöld. Á meðan hann var í skjóli yfirvalda framdi hann eða tók þátt í að fremja 18 morð og pyntaði einnig fólk og rændi því. Komst maðurinn upp með glæpi sína. Yfirmaður rannsóknarinnar segir fulla ástæðu fyrir bresk stjórnvöld að biðjast afsökunar á að hafa haldið hlífiskildi yfir manninum og þau eigi um leið að nafngreina hann.
Umræddur maður hefur raunar oft verið nafngreindur í fjölmiðlum. Hann bar dulnefnið Steikarhnífur (e. Stakeknife) en hét Freddie Scappaticci og leiddi sérstaka sveit innan IRA, „The Nutting Squad“, sem var ætlað að finna og myrða fólk innan samtakanna sem væri uppljóstrarar fyrir breska herinn, leyniþjónustuna eða norður-írsku lögregluna sem á þessum árum var kyrfilega hluti af breskum yfirráðum en IRA vildi að Norður-Írland yrði hluti af Lýðveldinu Írlandi.
Freddie Scappaticci var lengstum uppljóstrari fyrir sérstaka sveit innan breska hersins á Norður-Írlandi en sérrannsóknardeild lögreglunnar (e. RUC) og leyniþjónustan MI5 tóku virkan þátt í að styðja við bakið á honum og síðarnefndu tvær stofnanirnar nýttu sér vel þeir upplýsingar sem hann veitti.
Eftir að friður komst á á Norður-Írlandi var lögreglan þar (RUC) lögð niður í þáverandi mynd og ný stofnuð í staðinn (e. PSNI) og það var hún sem sá um þessa rannsókn.
Scappaticci stóð fyrir morðum, mannránum og pyntingum á einstaklingum sem IRA taldi uppljóstrara. MI5 hafði áður fullyrt að stofnunin hefði lítið komið nálægt hans málum en samkvæmt skýrslunni er það ekki satt. Í samstarfi við herinn veitti MI5 Scappaticci upplýsingar, tók við upplýsingum frá honum og sendi hann í ákveðin verkefni.
Scappaticci fæddist 1946 í Belfast en lést 2023. Hann var einna virkastur innan IRA og sem uppljótstrari á níunda áratug síðustu aldar.
Bresk stjórnvöld hafa alla tíð neitað að staðfesta að hann hafi sannarlega verið uppljóstrari þeirra. Lögmaður sumra aðstandenda þeirra sem Scappaticci er sakaður um að hafa myrt eða pyntað segir það hreina móðgun að nafngreina hann ekki í skýrslunni. Yfirmenn rannsóknarinnar hjá PSNI og æðsti yfirmaður embættisins, Ian Livingstone virtust taka undir það með yfirlýsingum sínum um að það eigi að gera en það sé í höndum stjórnvalda en ekki þeirra að nafngreina Steikarhnífinn og um leið eigi þau að biðjast afsökunar á að hafa gert Scappaticci kleift að vinna óhæfuverk sín.
Fjölskyldur fórnarlamba Scappaticci krefjast þess að þeir starfsmenn hersins, MI5 og RUC sem höfðu yfirumsjón með Scappaticci og nýttu upplýsingar hans verði sóttir til saka þar sem hann hafi framið morð með þeirra fulltingi en hann var aldrei ákærður fyrir ódæði sín.
Fram kemur í skýrslunni að breski herinn greiddi honum háar fjárhæðir og hjálpaði honum að kaupa fasteign en herinn hjálpaði honum einnig að komast undan rannsóknum RUC á þeim morðum sem hann framdi. Í skýrslunni segir að MI5 hafi sýnt Scappaticci óeðlilega mikla tryggð. Forstjóri MI5 hefur vottað fjölskyldum fórnarlambanna samúð og beðist afsökunar á að stofnunin hafi ekki afhent rannsóknaraðilum öll gögn sín varðandi Scappaticci þegar í stað en það var loks gert.
Ljóst virðist að þessu máli er hvergi nærri lokið.