
Eins og DV greindi frá fyrir skömmu hafði lögregla í Svíþjóð til rannsóknar mál þar sem upp komu dularfull veikindi starfsmanna á barnaspítala Akademiska háskólasjúkrahússins í Uppsala. Þá var ekki staðfest af hverju veikindin stöfuðu en grunur lék á að um eitranir væri að ræða og málið rannsakað sem tilraun til að myrða umrædda starfsmenn. Enginn lá þá að sögn undir grun. Nú hefur hins vegar verið staðfest að eitrað var fyrir starfsfólkinu, sem lifði allt af þótt sum þeirra hefðu verið í lífshættu um tíma. Kona sem er fyrrum starfsmaður spítalans hefur verið handtekin vegna gruns um að bera ábyrgð á eitrununum en þegar þær áttu sér stað var hún enn starfandi á spítalanum.
Óhugnanleg ráðgáta á barnaspítala – Grunur um tilraun til fjöldamorðs
Sænska ríkissjónvarpið SVT greinir frá þessu.
Fjórir starfsmenn veiktust á um einni viku en þeir unnu allir á sömu deildinni á spítalanum.
Konan var handtekin síðasta föstudag en þá var rétt um einn og hálfur mánuður liðinn frá því að starfsfólkið veiktist. Hún er grunuð um morðtilraunir og starfaði á spítalanum þegar öll tilfellin áttu sér stað.
Fyrstur til að veikjast var hjúkrunarfræðingur á deildinni, sem var á vakt. Fékk viðkomandi hitaköst, skjálfta, háan blóðþrýsting og óeðlilega háan hjartslátt. Hinir þrír starfsmennirnir sem veiktust fengu sams konar einkenni. Mældust allir fjórir með hættulega lítið magn af kalíum í blóði sínu.
Þolendurnir bíða nú eftir frekari niðurstöðu rannsóknarinnar og lögmaður eins þeirra segir að skjólstæðingur sinn voni að það skýrist nánar hvernig svona nokkuð gat gerst.
Sjúkrahúsið leggur áherslu á að öryggisráðstafanir hafi verið hertar en hvernig það á að koma nákvæmlega fyrir að svona nokkuð endurtaki sig kemur ekki fram hjá SVT.