
Búið var að taka flöskur úr hillum og lágu margar þeirra mölbrotnar á gólfinu.
Þegar starfsmenn leituðu af sér allan grun hvort einhver væri enn inni í versluninni fannst sökudólgurinn steinsofandi inni á starfsmannaklósettinu.
Ekki var um neinn venjulegan þjóf að ræða því sökudólgurinn reyndist vera þvottabjörn.
Starfsmenn höfðu samband við dýraeftirlitið í bænum og mætti Samantha Martin á vettvang og fékk hún það hlutverk að koma þvottabirninum út úr versluninni.
„Ég elska þvottabirni, þeir eru skemmtilegar skepnur,“ segir hún við AP-fréttaveituna og bætir við að umræddur þvottabjörn hafi sennilega komist inn í verslunina í gegnum þakið.
Hann virðist hafa verið sérstaklega forvitinn um flöskurnar í hillunum og innbyrt eitthvað af áfengi þar sem hann var áfengisdauður og steinsofandi þegar hann fannst.
Samantha fór með þvottabjörninn í athvarf þar sem hann fékk að jafna sig. Honum var svo sleppt aftur út í náttúruna og virðist ekki hafa orðið meint af – fyrir utan það að vera líklega örlítið timbraður.