
Karlmaður hefur verið ákærður fyrir þjófnað í Nýja-Sjálandi, en honum er gert að sök að hafa stolið verðmætu demantahálsmeni úr smiðju Fabergé með óvenjulegum hætti. Hálsmenið er metið á rúmlega 2,5 milljónir og menið sjálft er Fabergé-egg sem eru orðin sögufrægur skrautmunur sem efnameiri einstaklingar nota gjarnan sem stöðutákn. Menið hefur ekki fundist en talið er að meinti þjófurinn hafi gleypt það.
Lögreglan var kölluð að skartgripaverslun í Auckland á föstudaginn og handtók þar 32 ára gamlan karlmann. Hann var sendur á sjúkrahús í röntgenmyndatöku og var svo úrskurðaður í gæsluvarðhald. Eggið á hálsmeninu er skreytt með 60 hvítum demöntum og 15 bláum safírum. Það er hægt að opna eggið og innan í því er kolkrabbi úr 18 karata gulli. Eggið kallast Octopussy en innblásturinn að því var fenginn úr samnefndri kvikmynd um njósnarann James Bond. Myndin fjallar einmitt um þjófnað á Fabergé-eggjum. Maðurinn hefur eins verið sakaður um að hafa stolið Ipad frá sömu skartgripaverslun um miðjan nóvember og fyrir að hafa brotist inn á einkaheimili og stolið þaðan kattasandi og vörum til að losa gæludýr við flær.