
Bandarísk yfirvöld segjast „mjög bjartsýn“ á að ná samkomulagi um endalok stríðsins. Volodomír Selenskí Úkraínuforseti segir að viðræður undanfarna daga hafi verið „uppbyggilegar“ en enn séu nokkur erfið mál sem á eftir að leysa úr.
Í frétt BBC kemur fram að Jared Kushner, tengdasonur Trumps og óformlegur ráðgjafi í diplómatískum viðræðum, verði einnig viðstaddur fundinn.
Fundurinn í dag fer fram í kjölfar viðræðna í Flórída um síðustu helgi á milli úkraínskra og bandarískra embættismanna, þar á meðal Witkoff og Kushner, sem miðuðu að því að fínstilla friðaráætlun sem þótti heldur hliðholl Rússum.
Selenskí fundaði með Emmanuel Macron, forseta Frakklands í París í gær, og eftir þann fund sagði hann það forgangsmál fyrir Úkraínu að viðhalda fullveldi landsins og tryggja öryggi þess til framtíðar.
Lýsti hann því að erfiðasti hluti viðræðanna snúi að landsvæði sem Rússar vilja að Úkraínumenn afsali sér í austurhluta landsins – landsvæði sem er enn undir stjórn Úkraínumanna. Það er eitthvað sem Selenskí hefur talað um að muni aldrei gerast.
Í frétt BBC er vísað í ummæli Karoline Leavitt, upplýsingafulltrúa Hvíta hússins, sem sagði í gær að drög að friðarsamkomulaginu hefðu verið „fínpússuð“ að verulegu leyti og lét að því liggja að í nýju drögunum sé tekið meira tillit til Úkraínumanna. „Mér finnst ríkisstjórnin vera bjartsýn,“ sagði hún.
Kaja Kallas, utanríkismálafulltrúi ESB, segir að þessi vika gæti orðið „afdrifarík“, en bendir þó að Rússar virðist aðeins vilja semja við þá sem bjóða þeim meira en það sem þeir þegar hafa.
„Ég óttast að allur þrýstingurinn verði settur á veikari aðilann, því það er auðveldari leiðin til að stöðva stríðið – með því að Úkraína gefist upp. En það er ekki í þágu neins.“