
Bróðursonur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta spyr hvert þjóð sín sé komin, en hann er bæði hryggur og sár eftir að frændi hans, sjálfur forsetinn, kallaði ríkisstjóra Minnesota vangefinn á dögunum.
Orðið „vangefinn“ (e. retarded) þykir bæði niðrandi og úrelt, en á árum áður var það notað um fatlað fólk. Bróðursonur forsetans, Fred Trump III, er faðir barns með sérþarfir og fannst því einstaklega særandi að þurfa árið 2025 að útskýra hvers vegna þessi orðanotkun er óásættanleg. Fred skrifaði á samfélagsmiðla:
„Sem foreldri ungrar manneskju með alvarlega fötlun er notkun R-orðsins aldrei í lagi og er mjög særandi. Hvert er þessi þjóð komin að það þurfi í alvörunni að nefna þetta?“
Trump og hægrimenn hafa undanfarið farið mikinn um stöðuna í Minnesota og halda því fram að þar séu gengi innflytjenda frá Sómalíu að halda samfélaginu í heljargreipum. Trump kallaði ríkisstjórann, Tim Walz, „alvarlega vangefinn“ fyrir að hafa leyft þessu að gerast í færslu sem forsetinn ritaði á samfélagsmiðli sínum Truth Social í síðustu viku. Blaðamaður bar síðar undir hann orðavalið og benti á að mörgum þætti ekki við hæfi að nota orðið „vangefinn“ sem móðgun. Trump tók þó fram að hann trúi því einlæglega að eitthvað sé að ríkisstjóranum.
Sonur Fred er með alvarlegan genagalla sem veldur mikilli fötlun. Sonurinn notar hjólastól og getur ekki tjáð sig með orðum. Fred greindi frá því í æviminningum sínum, sem komu út í fyrra, að Donald Trump frændi hans hafi sagt það beinum orðum að það hefði verið betra ef sonur Fred hefði látið lífið.
„Þetta fólk, ástand þess, allur kostnaðurinn, kannski ætti svona fólk bara að deyja,“ mun forsetinn hafa sagt við bróðurson sinn. Við annað tilefni þegar Fred bað Donald Trump um að styrkja sjúkrasjóð sonar síns mun Trump hafa svarað: „Ég veit ekki. Hann veit ekki einu sinni hver þú ert. Kannski ættir þú bara að leyfa honum að deyja og svo flytja til Flórída.“