
Kash Patel, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), er ekki vinsæll þessa dagana. Hann er sakaður um að nota embætti sitt sjálfum sér til hagsbóta, til dæmis með því að nota einkaþotu FBI í einkaerindi og skipa sérsveitinni að sjá um öryggisgæslu á tónlistarviðburði þar sem kærasta hans kom fram.
Hann hefur gerst uppvís að því að nota embættið sjálfum sér til hagsbóta, til dæmis með því að nota einkaþotu FBI til að skjótast á stefnumót eða til að hitta vini. Eins vakti það athygli þegar hann lét sérsveitina sjá um öryggisgæslu á tónleikum þar sem kærasta hans, Alexis Wilkins, kom fram.
Þingmenn demókrata hafi nú kallað eftir upplýsingum um ferðir einkaþotunnar eftir að fréttir birtust um að Patel hafi notað hana til að skella sér á stefnumót með kærustunni og til að fara á vinahitting. Þingmaðurinn Jamie Raskin hefur krafið Patel svara um ferðir hans þann 25. október síðastliðinn. Þá flaug Patel með þotu FBI til Pennsylvaníu.
„Þau flaust þangað því kærasta þín var að koma fram á glímumóti á skólalóð háskólans í Pennsylvaníu. Eftir tónleikana notaðir þú þotu ríkisins til að skutla henni heim til Nashville degi síðar. Þetta stefnumót þitt var, að því er virðist, algjörlega ótengt skyldum þínum í starfi.“
Raskin spurði eins út í ferðalag til Texas.
„Síðar þessa sömu helgi flaugstu með þotu FBI til San Angelo í Texas í fjögurra daga ferð þar sem stór styrktaraðili repúblikanaflokksins, Bubba Saulsbory, tók á móti þér á Boondoggle-búgarðinum – sem er veiðibústaður sem auglýsir sig sem besta staðinn til að eyða peningum í óþarfa eða vafasöm verkefni.“
Yfirmönnum FBI er heimilt að hafa afnot af þotunni en þurfa að borga fyrir þá notkun sé hún ótengd starfi þeirra. Þotan umrædda er farþegaþota og þyrfti Patel þá að greiða það sem nemur eðlilegu fargjaldi fyrir sig og alla þá farþega sem hann tekur með sér sem ekki hafa með störf FBI að gera.
Þetta er ekki eina vígstöð Patels en nýlega kom út skýrsla um starfsaðstæður innan FBI. Þar er Patel harðlega gagnrýndur og sakaður um að vera ekki starfi sínu vaxinn, einkum vegna reynsluleysis. Eitt dæmi sem er nefnt í skýrslunni er framganga Patels eftir að áhrifavaldurinn Charlie Kirk var myrtur í september. Patel neitaði þá að fara um borð í þotu FBI án þess að fá formlegan FBI-jakka, en hann gleymdi sínum. Einhverjum tókst að finna miðlungsstóran kvennjakka og samþykkti Patel þá að fara í flugið. Þegar hann lenti á áfangastað tók hann eftir því að það vantaði tiltekin merki á jakkann og neitaði þá að yfirgefa vélina þar til einhver reddaði honum merkjunum. Patel er gagnrýndur fyrir þessa framkomu. Þarna hafi hann verið að rannsaka morð á sínum eigin vini, en tók engu að síður dramakast út af jakka frekar en að ganga hratt til verka.
Eins er Patel gagnrýndur í skýrslunni fyrir frumhlaup í rannsókninni er hann birti ótímabæra yfirlýsingu um að skotmaðurinn væri í haldi og fyrir að eigna sér heiðurinn eftir að raunverulegi skotmaðurinn gaf sig síðar fram.
FBI undir forystu Patels sé stefnulaus. Stjórnendur þori varla að athafna sig af ótta við að vera reknir, þeir bíði þess í stað eftir fyrirmælum frá Patel sem sjálfur hefur hvorki reynsluna né þekkinguna til að stýra starfinu upp á sitt eindæmi. Upplýsingum var lekið í fjölmiðla fyrir nokkru um að Patel hefði sótt um að fá úthlutað skotvopni í krafti embættis síns. Samkvæmt skýrslunni komst Patel í mikið uppám vegna lekans og skipaði öllum sem þekktu til málsins að gangast undir lygapróf til að komast að því hver sveik hann.