
Kennari í Ástralíu, hin 37 ára gamla Karly Rae, játaði sig seka fyrir dómi í síðustu viku, um kynferðisbrot gegn 15 ára gömlum nemanda. Karly hafði áður neitað sök og hafði fengið nemandann til að segja ósatt um samband þeirra og neita því að þau hafi stundað saman kynlíf.
Karly Rae er ákærð fyrir að tæla barn til ólöglegra kynlífsathafna, fyrir að hindra framgang réttvísinnar og fyrir að hafa undir höndum barnaníðsefni. Það síðastnefnda vísar væntanlega til myndefnis kennarans af nemandanum en þau áttu í miklum samskiptum á Snapchat sem lögð voru fram sem gögn í málinu.
Karly Rae fæddi barn fyrir átta vikum en ekki er vitað hver faðir þess er.
Í einum skilaboðanna sagði hún við drenginn að það væri of freistandi að vera í samskiptum við hann og því þyrfti hún að fjarlægja hann af tengiliðalistanum á Snapchat. Hann spurði hvort hann ætti að gera það sama gagnvart henni og þá skrifaði hún: „Þetta er mér að kenna. Ég tek fulla ábyrgð. Gerðu það sem þú vilt/þarft.“
Karly Rae var fyrst handtekin vegna málsins í október árið 2024, í sama mánuði og meint brot áttu sér stað. Hún var látin laus gegn tryggingu en var aftur handtekin í janúar á þessu ári eftir að hafa hringt margsinnis í brotaþola og reynt að fá hann til að segja ósatt um málið við yfirvöld.
Dómur verður kveðinn upp yfir kennaranum í mars á næsta ári. Nánar má lesa um málið hér.