
Hin ráðagóða Abby hefur svarað lesendum bandarískra fjölmiðla síðan á sjötta áratug síðustu aldar. Hún hefur verið svo vinsæl að eftir að hin upprunalega Abby, Pauline Esther Phillips, lést árið 2013 tók dóttir hennar, Jeanne Phillips, við keflinu.
Abby tekst á við ýmislegt sem brennur á lesendum hennar og endurspegla svör hennar stundum breytingar í samfélaginu sem fólk hefur ekki endilega áttað sig á. Kona nokkur ritaði henni bréf og leitaði ráða vegna systur sinnar, sem hún sagði níska og gefa börnum sínum hræðilegar gjafir.
„Kæra Abby. Systir mín er ómerkileg. Hún er heldur ekki góð í að velja gjafir handa fólki. Oft eru hlutirnir sem hún gefur verri en ef hún hefði sleppt því að gefa gjöf. Dæmi: Hún var hér í heimsókn og færði fjögurra ára syni mínum leikfangabíl sem hún hafði keypt á bílskúrssölu, en eitt hjólið var brotið af. Hún var með hjólið í töskunni sinni og sagði eitthvað um að líma það aftur á, en gerði það aldrei. Þegar hún fór reyndum við að líma það, en það kom í ljós að ekki var hægt að laga leikfangið og sonur minn varð mjög vonsvikinn.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta hefur gerst. Það eru dæmi um föt sem eru of lítil, rifin eða óhrein, leikföng send svo seint að barnið er löngu vaxið upp úr því að leika með þannig leikfang og svo framvegis. Þetta snýst ekki um peninga. Hún er forstöðumaður lagadeildar, svo hún getur keypt hvað sem henni sýnist. Þetta snýst um athygli.
Ég hef talað við hana nokkrum sinnum um að hætta að koma með gjafir, en hún segir að henni finnist gaman að sjá börn opna hlutina sem hún kemur með. Einhvern tímann verða börnin mín nógu gömul til að sjá hegðun hennar sem einkennilega, en í bili vil ég að hún hætti. Hef ég rétt fyrir mér?“
Abby svaraði konunni með þeim orðum að henni mætti finnast þessi hegðun systur sinnar óeðlileg.
„Systir þín virðist vera „óhefðbundin“. Ég er sammála þér um að einn daginn í ekki svo fjarlægri framtíð munu börnin þín vera nógu greind til að taka eftir því að „gjafirnar“ sem systir þín færir þeim eru óhreinar eða brotnar og valdar án tillits til áhugamála þeirra eða smekks. Leið til að forðast vandamálið væri að bjóða henni ekki í heimsókn í kringum afmæli eða hátíðir, eða að taka við óviðeigandi gjöfum hennar áður en börnin sjá þær.“