
Fyrrverandi klámmyndaleikkona á fimmtugsaldri er nú fyrir rétti í Las Vegas ákærð fyrir að hafa afhöfðað barnsföður sinn og jafnaldra en hann var um leið tengdafaðir hennar þar sem hún hafði að sögn á laun gifst syni hans af fyrra hjónabandi. Er talið að hún hafi viljað losna við barnsföður sinn til að geta haldið sambandinu við stjúpsoninn áfram óhindrað. Hafði konan áður játað en hefur nú dregið það til baka og segist saklaus.
Konan heitir Devyn Michaels og er 46 ára. Hún var handtekin á síðasta ári en barnsfaðir hennar og kærasti Jonathan Willette, sem var jafnaldri Michaels, fannst látinn í ágúst 2023 á heimili sínu en hann hafði verið afhöfðaður og var með sár eftir efnabruna á því sem eftir var af líkama hans.

Saksóknari segir að klór og ammoníaki hafi verið hellt á líkama Willette en höfuð hans hafi aldrei fundist.
Samkvæmt fregnum fjölmiðla í Las Vegas höfðu Michaels og Willette átt í ástarsambandi sem staðið hafi yfir með hléum í ótilgreindan tíma og áttu saman tvær dætur undir lögaldri. Hins vegar hafi Michaels gifst stjúpsyni sínum, uppkomnum syni Willette af fyrra sambandi hans Deviere Willette, á laun. Í raun virðist því Willette bæði hafa verið kærasti og tengdafaðir Michaels. Deviere segir þó föður sinn hafa vitað af hjónabandinu.

Michaels játaði fyrir um ári að hafa orðið Willette að bana. Var játningin hluti af samkomulagi við embætti saksóknara en í staðinn hlaut hún 15 ára fangelsisdóm, fyrir það sem í Bandaríkjunum er kallað morð af annari gráðu, með möguleika á reynslulausn.
Í sumar var komið að dómsuppkvaðningu en þá skipti Michaels um skoðun, dró játningu sína til baka og lýsti yfir sakleysi. Hún var í kjölfarið ákærð fyrir morð að yfirlögðu ráði eða fyrstu gráðu eins og það er kallað vestanhafs.
Réttarhöldin hófust síðan nú í þessari viku. Saksóknari segir Michaels hafa framið ódæðið til að geta alið upp dætur sínar með eiginmanninum og stjúpsyninum, sem er 29 ára gamall.
Willette eldri og Michaels voru aldrei gift en hún giftist Deviere í laumi árið 2021. Mun hún hafa tjáð lögreglu að það hafði verið ekki síst vegna heilsu hennar og til að auðvelda stjórn á málum tengdum þeirri heilbrigðisþjónustu sem hún þyrfti að nýta sér.
Fram kemur í fréttum fjölmiðla að staðið hafi til að Willette eldri og Michaels myndu hefja aftur sambúð barnanna vegna en saksóknarar segja að það hafi ekki verið það sem hún raunverulega vildi heldur vera með Willette yngri.
Lygamælir gaf til kynna að Michaels hefði eitthvað að fela þegar hún var spurð hvort hún bæri ábyrgð á dauða barnsföður síns. Mun hún hafa viðurkennt að hafa slegið hann með sleif í höfuðið daginn sem hann var myrtur og hafa tjáð lögreglumönnum að hún hafi ekki ætlað að drepa hann heldur aðeins slasa hann til að skapa sjálfri sér svigrúm til að ákveða næstu skref með börnin.
Talið er að höfði Willette hafi verið fyrst hent í ruslið en síðan komið fyrir í landfyllingu.
Fullyrðir Michaels að hún sé saklaus og geti sannað það. Hafa raunar lögmenn hennar við réttarhöldin beint spjótunum að Willette yngri og látið að því liggja að hann hafi myrt föður sinn.