
Livia var svissneskur ríkisborgari en kærasti hennar, hinn 26 ára gamli Lukas Schindler, slasaðist einnig í árásinni.
Livia og Lukas fengu sér sundsprett í sjónum snemma í gærmorgun í Crowdy Bay, suður af Port Macquarie á austurströnd Ástralíu, nokkurn veginn miðja vegu á milli borganna Sydney og Brisbane.
Schindler er skiptinemi í Ástralíu og var Livia í heimsókn hjá kærasta sínum þegar slysið varð. Hann hafði nýlega lokið gráðu í köfun og er hann sagður hafa barist hetjulega þegar hinn þriggja metra langi hákarl réðst á Liviu.
Schindler var bitinn tvisvar en tókst á einhvern ótrúlegan hátt að koma sjálfum sér og Liviu, sem var lífshættulega slösuð, um 50 metra leið í land. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var hún látin, en hákarlinum tókst meðal annars að rífa af henni annan handlegginn.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að parið hafi farið í sjóinn til mynda höfrunga með GoPro-myndavél, en þau virðast ekki hafa áttað sig á því að svæðið sem um ræðir er þekkt hákarlasvæði.