
Forsetinn tilkynnti þetta á samfélagsmiðlinum Truth Social þegar hann var á leið til fundar við Xi í borginni Busan í Suður-Kóreu. Reuters greinir frá þessu.
Sagðist hann hafa gefið varnarmálaráðuneyti landsins fyrirmæli um að prófa kjarnorkuvopnabúnað Bandaríkjanna „á jafnréttisgrundvelli“ við önnur kjarnorkuríki. Vísaði hann til þess að önnur kjarnorkuríki væru að prófa vopn sín og prófanir Bandaríkjanna væru nauðsynlegar til að Bandaríkin héldu í við keppinauta sína.
„Þar sem önnur ríki stunda prófanir tel ég eðlilegt að við gerum það einnig,“ sagði hann um borð í forsetaflugvélinni á leið til Bandaríkjanna eftir fundinn. Bætti hann við að ákvörðun um prófunarsvæði yrði tekin síðar.
Þegar hann var spurður að því hvort hann teldi að heimurinn væri að ganga inn á hættulega braut hvað kjarnorkuvopn varðar vísaði hann því á bug. Hann sagði þó að hann myndi fagna afvopnun í ljósi þess hve mörg kjarnorkuvopn eru til og mörg ríki séu að vígbúast á þessu sviði. Kínverjar væru til dæmis að framleiða mikið magn kjarnorkuvopna til að hafa til taks í vopnabúri sínu.