fbpx
Miðvikudagur 29.október 2025
Pressan

Neita að svara spurningum um einkasamkvæmi fjölskyldumeðlima í embættisbústaðnum og gagnrýna fréttaflutning harðlega

Pressan
Miðvikudaginn 29. október 2025 19:30

Ulf Kristersson forsætisráðherra Svíþjóðar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluvert hefur verið fjallað í dag í sænskum fjölmiðlum um einkasamkvæmi sem bæði dóttir og mágkona forsætisráðherra landsins, Ulf Kristersson, héldu í öðrum af tveimur embættisbústöðum ráðherrans. Sérfræðingur í spillingu segir ljóst að slík notkun, sem hafi ekkert með störf forsætisráðherra að gera, á bústaðnum sé ekki viðeigandi og enginn forvera hans hafi notað hann með þessum hætti. Skrifstofa Kristersson neitar hins vegar að svara spurningum fjölmiðla um málið en aðstoðarmenn hans og fjölskylda gagnrýna harðlega fjölmiðilinn sem fyrstur flutti fréttir af málinu. Er hann sakaður um aðför að dóttur ráðherrans og sá fjölmiðillinn sig tilneyddan til að gera grein fyrir vinnubrögðum sínum við fréttaflutninginn.

Umræddur embættisbústaður heitir Harpsund og er herragarður sem staðsettur er í sveitarfélaginu Flen, í Södermanland-sýslu, og er um 90 kílómetra suðvestur af Stokkhólmi. Harpsund er sumarbústaður forsætisráðherra en hans daglegi embættisbústaður er Sagerska huset í miðborg Stokkhólms.

Það var kaupsýslumaðurinn Carl August Wicander sem arfleiddi sænska ríkið að Harpsund árið 1953 en í erfðaskránni var tekið fram að það væri gert í þeim tilgangi að nota herragarðinn með þessum hætti fyrir forsætisráðherra. Síðan þá hefur forsætisráðherra notað bústaðinn bæði sem afdrep á sumrin en einnig við störf sín meðal annars með því að bjóða erlendum ráðamönnum þangað í heimsóknir.

Harpsund

Fréttir

Það var Aftonbladet sem flutti fyrst fréttir af samkvæmi dóttur Kristersson en það fór fram í Harpsund árið 2023 en hann hefur verið forsætisráðherra síðan árið 2022. Mun dóttirin hafa boðið hópi skólafélaga sinna í samkvæmið.

Aftonbladet hefur birt fjölda frétta af málinu en Svenska Dagbladet greindi síðan frá því, eftir að fréttir af samkvæmi dótturinnar birtust, að Kristersson hefði einnig leyft mágkonu sinni að halda upp á 70 ára afmælið sitt í Harpsund. Sérfræðingur sem þar var rætt við segir málið einnig snúast um að forsætisráðherrann verði að aðskilja opinber störf sín og einkalíf og svona notkun á embættisbústaðnum afmái þau mörk.

Aftonbladet ræddi málið við Olle Lundin sem er sérfræðingur í stjórnskipunarrétti við Háskólann í Uppsala en hann hefur í sínum rannsóknum ekki síst beint sjónum sínum að spillingu. Hann segir forsætisráðherrann ekki hafa brotið lög með því að leyfa svona notkun á Harpsund, sem hafi ekkert að gera með hans störf, en þetta sé hins vegar mjög óviðeigandi enda sé um eign ríkisins að ræða.

Þegar sænska ríkið eignaðist Harpsund voru sérstök lög sett um bústaðinn. Í þeim kemur meðal annars fram að forsætisráðherrann geti heimilað notkun á bústaðnum þar sem hann sjálfur komi hvergi nærri. Í því samhengi er þó ekkert minnst á einkasamkvæmi fjölskyldumeðlima heldur fundi og ráðstefnur af hálfu opinberra aðila eða félagasamtaka. Í tilfelli dóttur Kristersson var þó samkvæmið haldið á vegum nemendafélags skólans.

Fréttir

Lundin telur þó eins og áður segir að notkun Harpsund með þessum hætti samræmist þessum lögum en hún sé óviðeigandi. Það beri ekki vott um góða dómgreind af hálfu Kristersson að leyfa fjölskyldumeðlimum að halda samkvæmi og veislur í bústaðnum sem hafi enga þýðingu fyrir störf ráðherrans eða annarra opinberra aðila í Svíþjóð.

Flokksfélagar Kristersson í hægri flokknum sem hann leiðir, Moderaterna, hafa komið honum til varnar og gagnrýnt Aftonbladet opinberlega fyrir sinn fréttaflutning af samkvæmi dótturinnar. Fjölmiðillinn segir þó að flokksmenn segi aðra sögu í samtölum við blaðamenn hans en vilji ekki koma fram undir nafni. Viðkomandi segi að Kristersson sé að færa til öll mörk þegar kemur að einkavinavæðingu og klíkuskap en í gegnum tíðina hefur umburðarlyndi gagnvart slíku verið mjög lítið í sænskum stjórnmálum og ekki hefur þurft stór brot af hálfu ráðherra til að ekkert annað sé í stöðunni en afsögn.

Stjórnarandstaðan gagnrýnir einnig Kristersson og segir ljóst að þegar sænska ríkið hafi fengið Harpsund að gjöf hafi ætlunin ekki verið að herragarðurinn yrði notaður fyrir einkasamkvæmi fjölskyldu forsætisráðherrans og svona notkun dragi úr gildi og virði Harpsund fyrir arftaka Kristersson. Heimildarmenn innan úr flokki hans segjast hafa áhyggjur af því að forsætisráðherran skorti þær hömlur sem forverar hans hafi búið yfir en enginn fordæmi eru sögð vera fyrir því að Harpsund hafi verið notað með þessum hætti síðan að eignin varð að sumarbústað forsætisráðherra. Sagði heimildarmaðurinn forsætisráðherrahjónin einnig hafa notað Sagerska huset til samkvæma sem kæmu störfum ráðherrans ekkert við.

Gagnrýni

Í umfjöllun sænska ríkissjónvarpsins kemur fram að aðstoðarblaðafulltrúi forsætisráðherrans segi að staðfest hafi verið af lögfræðingum á stjórnarskrifstofu ríkisins (s. Regeringskansliet) að engin lög eða reglur hafi verið brotin og samt sé Aftonbladet að fara á eftir dóttur ráðherrans og vinum hennar. Fjölmiðlar bæru sína ábyrgð.

Þetta gerði viðkomandi í færslu á X en einn af aðstoðarritstjórum Aftonbladet, Jonathan Jeppsson, neitaði þessu og sagði að rætt hefði verið við einn gest sem var viðstaddur samkvæmið. Aldrei hafi komið til greina að reyna að ná tali af dóttur Kristersson. Ráðlagði hann blaðafulltrúanum að eyða færslunni sem sakaði Jeppsson þá um hótun.

Eiginkona Kristersson, Birgitta Ed, segir ekkert óeðlilegt hafa verið við samkvæmi dóttur þeirra og hún og vinir hennar hafi ekkert gert neitt rangt. Spurningar Aftonbladet hafi verið óeðlilegar og fjölmiðilinn hafi reynt að nálgast persónulegar upplýsingar um fjölskylduna sem hún eigi eins og aðrir sænskir borgarar rétt á að trúnaður ríki um. Birti Aftonbladet ítarlega fyrirpurn sína um samkvæmi dótturinnar sem það segir forsætisráðherrann neita að svara en þar er hvergi spurt um persónulega hagi dóttur hans heldur er hann beðinn um að útskýra þessa notkun á Harpsund.

Í ljósi gagnrýninnar sá Aftonbladet ástæðu til að birta samantekt um vinnubrögð sín í málinu og þar er lögð áhersla á að fréttaflutningurinn snúist ekki um neinar meintar misgjörðir dóttur forsætisráðherrans heldur sé miðilinn einfaldlega að fjalla um hvernig ráðherrann noti eign ríkisins og hvernig hann leyfi fjölskyldu sinni að nota hana.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Ákvað að flytja úr landi og lét ChatGPT velja áfangastaðinn – „Það er eiginlega ótrúlegt að ég búi hér”

Ákvað að flytja úr landi og lét ChatGPT velja áfangastaðinn – „Það er eiginlega ótrúlegt að ég búi hér”
Pressan
Fyrir 3 dögum

Sakamál: Þriggja barna móðir lifði tvöföldu lífi

Sakamál: Þriggja barna móðir lifði tvöföldu lífi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Trump hækkar tolla á Kanada út af auglýsingu

Trump hækkar tolla á Kanada út af auglýsingu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Slapp úr haldi eftir fimm ár í hryllingshúsi

Slapp úr haldi eftir fimm ár í hryllingshúsi