
Það er vel þekkt að konur geti fengið fæðingarþunglyndi eftir að hafa fætt börn en líklega er minna þekkt að rannsóknir benda til að fæðingarþunglyndi geti einnig haft áhrif á nýbakaða feður.
Einkenni fæðingarþunglyndis í konum eru einna helst mikil depurð, kvíði og þreyta.
Fæðingarþunglyndi er talið geta haft áhrif á um 10 prósent karlmanna.
Læknar segja þó geta verið vandasamt að greina fæðingarþunglyndi í körlum þar sem einkennin séu oft talin stafa af einhverju öðru. Dæmigerð einkenni fæðingaþunglyndis í körlum eru aukinn pirringur og reiði, að viðkomandi einangri sig meira og vaxandi áhættuhegðun eins og t.d. að stunda í auknum mæli fjárhættuspil og neyta vímuefna.
Umhverfisþættir og lífeðlisfræðileg fyrirbrigði geta bæði stuðlað að fæðingarþunglyndi í körlum. Þótt þeir verði sannarlega ekki fyrir jafn miklum breytingum á hormónum og barnsmæður þeirra, á meðgöngu, þá hafa rannsóknir sýnt að magn testósteróns í karlmönnum getur minnkað á meðan meðgöngu barnsmóður stendur og eftir að henni er lokið.
Þegar kemur að hormónabreytingum hjá körlum í kjölfar fæðingar þá hefur ekki síst að segja að nú er í auknum mæli hvatt til þess að nýbakaðir feður geri eins og mæður og leggi nýfædd börnin á bera bringu sína. Það hefur mælanleg áhrif á hormón í feðrunum og þar með áhrif á tilfinningalíf þeirra.
Það getur líka haft áhrif á fæðingarþunglyndi í nýbökuðum feðrum að þurfa að vaka mikið yfir barninu og auðvitað einnig áhyggjurnar sem geta fylgt því að eignast sitt fyrsta barn sérstaklega.
Fæðingarþunglyndi í körlum er yfirleitt mest og algengast fyrstu 3-6 mánuðina eftir fæðingu barns en það getur þó komið upp síðar. Læknar vara karla við því að hunsa fæðingarþunglyndi og minna á að það hafi ekki síður neikvæð áhrif á börn þeirra og sé ekkert að gert geti áhrifin á börnin orðið varanleg.