Saksóknarar halda því fram að systkinin Mary og Elwyn Crocker hafi verið pyntuð, geymd í hundabúrum og svelt áður en fjölskyldumeðlimir myrtu þau. Mark Wright frá Georgíu hefur játað að hafa aðstoðað mág sinn við að myrða tvö börn hans og grafa lík þeirra í bakgarði við hjólhýsi sem fjölskyldan bjó í. Wright játaði sök vegna morðs af annari gráðu, grimmd gegn börnum, tveimur ákæruliðum um að leyna dauða annars manns og ólögmætri fangelsun, tilkynnti saksóknarinn Robert Busbee í yfirlýsingu föstudaginn 29. ágúst.
Sem hluti af samkomulagi sínu við saksóknarana játaði Wright sök í skiptum fyrir að upprunalega ákæran um manndráp af illvilja yrði lækkuð í morð af annarri gráðu og annar af tveimur ákæruliðum um grimmd af fyrsta stigi gegn börnum yrði lækkuð í annars stigs, að sögn saksóknara héraðsins. Dauðarefsingin var einnig felld niður sem hluti af samkomulaginu, að sögn Busbee.
Wright á yfir höfði sér allt að 80 ára fangelsi þegar hann verður dæmdur í október.
People greinir frá því að árið 2018 var Wright einn af fimm einstaklingum sem ákærðir voru í tengslum við dauða Elwyn Crocker yngri, 14 ára, árið 2016, og systur hans, Mary Crocker, einnig 14 ára, árið 2018, en lík þeirra fundust við heimili föður þeirra í Guyton í desember 2018.
Ákæran beinist einnig gegn föður barnanna, Elwyn Crocker eldri, fyrrverandi jólasveini í stórverslun Walmart. Elwyn eldri sætir mörgum ákærum, þar á meðal manndrápi af gáleysi, grimmd gegn börnum og að leyna dauða. Hann á yfir höfði sér dauðarefsingu ef hann verður fundinn sekur.
Kim Wright, sem er móðir Mark Wright og stjúpamma Crocker systkinanna, stendur frammi fyrir svipuðum ákærum. Hún og Crocker eldri neituðu sök og bíða nú réttarhalda.
Candice Crocker, stjúpmóðir barnanna, og Roy Prater, kærasti Kim Wright, játuðu sök vegna morðanna árið 2020. Þau voru dæmd í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.
Málið komst í fréttir um öll Bandaríkin þegar yfirvöld fundu lík barnanna grafin í garðinum fyrir aftan hús þeirra.
Mary Crocker, 14 ára, er sögð hafa eytt stórum hluta æsku sinnar nakin, svelt og haldið í hundabúri, og verið barin þegar hún reyndi að borða mat, að sögn saksóknara árið 2019. Hún sást síðast í október 2018.
Bróðir hennar, Elwyn Crocker yngri, sem var tveimur árum eldri en Mary, sást síðast í nóvember 2016. Hann var einnig illa barinn af föður sínum, að sögn saksóknara.
Börnin voru aldrei tilkynnt týnd. Yfirvöld fundu líkin eftir að hafa framkvæmt velferðarskoðun á heimili fjölskyldunnar árið 2018.
Smáskilaboð milli hinna grunuðu fyrir og eftir að þeir munu hafa myrt og grafið Mary í október 2018 veita innsýn í hugarástand þeirra á þeim tíma.
Í réttarhöldum í maí sagði saksóknarinn Matthew Breedom fyrir dómi að Elywn Crocker eldri hefði sent Candice Crocker smáskilaboð og sagt: „Ég held að hún hafi verið lamin of oft í höfuðið.“
Klukkan 17:33 þann 27. október 2018 sendi Elwyn Crocker eldri Kim Wright sms og sagði: „Næstum því búinn að jarða lík Mary.“ Kim Wright svaraði: „Flott! Hversu djúpt?“
Á meðan Crocker eldri var að jarða lík Mary sendi hann Kim Wright sms og sagði: „Það var bíll að keyra fram hjá, mjög hægt, ég held að það hafi verið lögga.“
Að lokum sendu Crocker eldri og Kim Wright hvort öðru sms um áform um að fara í bíó eftir að hafa jarðað lík Mary, sagði Breedom.