Margir nota sólarvörn frá síðasta ári, því hún á jú ekki að fara til spillis. En það geta verið alvarleg mistök að nota hana nú.
Ástæðan er að með tímanum getur útfjólubláa geisla-sían, í sólarvörninni, veikst. Þetta á sérstaklega við ef hún hefur verið geymd í heitum baðherbergisskáp eða ef sólin hefur náð að skína á hana.
Þegar sólarvörnin verður of gömul, þá glatar hún getunni til að loka fyrir aðgang hinna hættulegu útfjólubláu geisla sólarinnar að líkamanum.
Svona er hægt að sjá hvort sólarvörnin er of gömul:
Lyktin er oft öðruvísi, nokkuð sterk.
Litur hennar hefur breyst eða þá er hún hlaupin í kekki.
Hún er komin fram yfir síðasta notkunardag.
Geymslan á henni skiptir einnig miklu máli. Sólarvörnin má aldrei standa í beinu sólarljósi eða í hlýju umhverfi eins og bílnum.
Best er að geyma hana á köldum og þurrum stað. Þannig helst verndarmáttur hennar lengur.