The Guardian skýrir frá þessu og segir að mislingafaraldurinn í Bandaríkjunum sé sá stærsti í aldarfjórðung. Hann hefur lagst þyngst á Texas fram að þessu en þar hafa tvö óbólusett börn látist af völdum sjúkdómsins á þessu ári. Einn óbólusettur fullorðinn er einnig látinn af völdum sjúkdómsins.
Mislingatilfelli hafa einnig komið upp í Nýju-Mexíkó og Oklahóma.
„Við lifum í eftir-hjarónæmis-heimi. Ég held að mislingafaraldurinn sanni það,“ hefur The Guardian eftir Dr Paul Offit, sérfræðingi í smitsjúkdómafræði og ónæmisfræðingi og forstjóra bólusetningarfræðslumiðstöðvar barnasjúkrahússins í Philadelphia.
Hann sagði einnig að mislingar, sem eru mest smitandi af öllum þeim sjúkdómum sem er hægt að bólusetja gegn, sé fyrsti sjúkdómurinn til að ná sér aftur á strik.
Mislingum var útrýmt í Bandaríkjunum árið 2000. Sjúkdómi telst hafa verið útrýmt þegar ekkert tilfelli greinist í 12 mánuði í röð. En nú er staðan önnur því 1. maí höfðu 935 mislingatilfelli verið staðfest í landinu. Tæplega eitt af hverjum þremur börnum, yngri en fimm ára, sem hafa greinst með mislinga hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahús.