AFP hefur eftir sagnfræðiprófessornum Katherine Jellison að fjarvera Melania frá sviðsljósinu sé „stórt og mjög athyglisvert“ brot á hefðum.
„Hún er einfaldlega öðruvísi en allar hinar forsetafrúrnar, að minnsta kosti hjá síðustu kynslóðum. Ég verð að fara allt aftur til Bess Truman í lok fimmta áratugarins og upphafs þess sjötta til að finna forsetafrú sem lét svo lítið fyrir sér fara,“ sagði Jellison.
Á fyrra kjörtímabili Trump og aftur núna, hefur Melania að mestu haldið sig fjarri sviðsljósinu og látið lítið fyrir sér fara.
Þegar Trump sigraði í kosningunum 2016, valdi Melania að búa áfram í New York um hríð eftir að eiginmaðurinn flutti í Hvíta húsið. Þetta gerði hún til að sonur þeirra, Barron, gæti lokið skólaárinu í skólanum sínum.
En áhugafólk um Melania getur tekið gleði sína því síðar á árinu verður ný heimildarmynd, sem streymisveitan Amazon Prime hefur tryggt sér sýningarrétt, sýnd. Í myndinni verður að sögn skyggnst á bak við tjöldin í lífi Melania.