fbpx
Laugardagur 26.október 2024
Pressan

Hefja rannsókn á einu dularfyllsta morðmáli Evrópu á nýjan leik

Pressan
Miðvikudaginn 12. júní 2024 04:05

Suhaila al-Allaf, Iqbal al-Hilli, Saad al-Hilli og Sylvain Mollier.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með aðstoð nýjustu tækni á sviði DNA-rannsókna vonast franska lögreglan til að finna afgerandi sönnunargögn í einu dularfyllsta morðmáli Evrópu. Nú verður hafist handa við að gera nýjar DNA-rannsóknir á þeim sönnunargögnum sem eru til staðar.

Málið snýst um morð á bresk-íraskri fjölskyldu og frönskum hjólreiðamanni fyrir 12 árum síðan. Bróðir eins fórnarlambsins segir að lögreglan hafi horft í ranga átt við rannsókn málsins.

Það var þrennt úr bresk-írösku al-Hilli fjölskyldunni sem var skotið til bana auk fransks hjólreiðamanns á litlu bílastæði við fáfarinn fjallveg nærri Annecy-vatninu í austurhluta Frakklands.

Talið er að morðinginn hafi á tæpum 90 sekúndum skotið 21 skoti. Tvær stúlkur, systur, sem voru þá 4 og 7 ára lifðu árásina af.

Rannsókn lögreglunnar var mjög víðtæk og fjölda vísbendinga var fylgt en ekki hefur tekist að hafa uppi á morðingjanum. Talið er að hann hafi yfirgefið morðvettvanginn á mótorhjóli.

Mail Online segir að nú sé sú deild lögreglunnar, sem rannsakar gömul sakamál, tekin við rannsókn málsins og ætli að beita nýjustu DNA-tækni. Fatnaður sjö ára stúlkunnar og reiðhjólamannsins verður tekin til rannsóknar á nýjan leik. Einnig verður leitað að DNA á sígarettustubbi og hluta af því sem talið er vera morðvopnið en þessi hluti fannst nærri morðvettvanginum.

Röng kenning

Bróðir fjölskylduföðurins, sem var myrtur, sagði nýlega að fjölskyldan hafi ekki verið skotmark morðingjans, það hafi verið hjólreiðamaðurinn.

Al-Hilli fjölskyldan, sem bjó í Claygate sunnan við Lundúnir, var á ferðalagi um Frakkland. Þau stöðvuðu á bílastæði við fjallveg einn. Þar var fjölskyldufaðirinn, hinn fimmtugi tölvusérfræðingur Saad al-Hilli, skotinn til bana með einu skoti í ennið. Hann hrundi fram á stýrið. Í baksætinu sat 74 ára tengdamóðir hans, Suhaila, sem var einnig drepin með skoti í höfuðið. Eiginkona hans, hin 47 ára Iqbal, var skotinn til bana þar sem hún sat í aftursætinu.

Sjö ára dóttir þeirra, Zainab, var skotin í öxl og síðan slegin í höfuðið með skefti skammbyssunnar. Talið er að morðinginn hafi orðið uppiskroppa með skotfæri og það hafi bjargað lífi Zainab.

Áður en hann beitti hana ofbeldi, skaut hann hjólreiðamanninn Sylvain Mollier fimm skotum.

Það var breskur hjólreiðamaður sem kom fyrstur á vettvang og fann Zainab illa særða. Ekkert farsímasamband er á svæðinu og lagði hann hana því í læsta hliðarlegu og þau niður fjallið til að komast í símasamband.

Eftir átta klukkustunda rannsóknarvinnu á vettvangi hófst lögreglan handa við að fjarlægja líkin úr bílnum. Þá fannst hin fjögurra ára Zeena, sem var ómeidd en ofsahrædd. Hún hafði falið sig undir kjól látinnar móður sinnar.

Lögreglan taldi í fyrstu að leigumorðingi hefði verið að verki en féll frá þeirri kenningu þegar í ljós kom að morðvopnið var gömul Luger P06-29 skammbyssa sem svissneski herinn notaði á fjórða áratugnum.

Fjöldi vísbendinga

Franska lögreglan hefur með aðstoð lögreglu í 14 löndum fylgt fjölda vísbendinga eftir.

Franskur kaupsýslumaður frá Lyon hefur margoft verið handtekinn. Hann ók mótorhjóli og var á svæðinu þegar morðin voru framin. Hann hefur aldrei verið ákærður.

Saad al-Hilli starfaði fyrir fyrirtæki sem sérhæfir sig í fjarskiptum um gervihnetti. Í hjólhýsi fjölskyldunnar fann lögreglan tölvur og harða diska. Því var velt upp hvort hann hefði stundað iðnaðarnjósnir en vinnuveitandi hans þvertekur fyrir það.

Fjölskyldan var frá Írak. Margir Írakar, sem búa í Bretlandi, starfa fyrir bresku leyniþjónustuna og hafa verið skotmörk íraskra útsendara. En vangaveltur um slík tengsl Saad hafa ekki leitt til neins árangurs við rannsókn málsins.

Ein af helstu kenningum í rannsókninni var að samband Saad og eldri bróður hans, Zaid, hafi verið slæmt vegna erfðamála. Breska lögreglan rannsakaði þann vinkil og Zaid var handtekinn en ekki tókst að sýna fram á þessi tengsl.

Zaid sakaði nýlega frönsku lögregluna um að leyna sannleikanum í málinu og að hafa beint rannsókn sinni í ranga átt. Það hafi verið hjólreiðamaðurinn sem var skotmark morðingjans, ekki al-Hilli fjölskyldan.

Þessi kenning er ekki ný af nálinni og lögreglan hefur furðað sig á af hverju Mollier hjólaði upp lélegan fjallveg á rándýru keppnishjóli. Hann átti í ástarsambandi við konu úr ríkri franskri fjölskyldu og samdi ekki vel við verðandi tengdaföður sinn.

Zaid segir að miðað við rannsóknargögn hafi Mollier verið skotinn fyrstur þegar hann var að reyna að laga keðjuna á hjólinu sínu. Því næst hafi fjölskyldan verið skotin, því hún hafi orðið vitni að morðinu á Mollier.

Það var sem sagt al-Hilli fjölskyldan, en ekki Mollier, sem var á röngum stað á röngum tíma að mati Zaid.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Jón Daði í Wrexham
Pressan
Fyrir 2 dögum

Rússneskir njósnarar sagðir hafa sent sprengjur flugleiðis til Bretlands og Þýskalands

Rússneskir njósnarar sagðir hafa sent sprengjur flugleiðis til Bretlands og Þýskalands
Pressan
Fyrir 2 dögum

Starfsmaður Walmart lést á voveiflegan hátt

Starfsmaður Walmart lést á voveiflegan hátt
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fyrirsæta opnar sig um atvikið sem gjörbreytti lífi hennar

Fyrirsæta opnar sig um atvikið sem gjörbreytti lífi hennar
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þingmaður öskraði á Karl Bretakonung- „Þetta er ekki landið þitt og þú ert ekki minn konungur“

Þingmaður öskraði á Karl Bretakonung- „Þetta er ekki landið þitt og þú ert ekki minn konungur“