Bilun varð til þess að afturhleri líkbíls opnaðist þegar hann var að flytja lík á milli staða með þeim afleiðingum að líkið féll á götuna.
Í fréttum pólskra fjölmiðla kemur fram að ökumaður hafi verið á leið niður götu í Stalowa Wola í suðausturhluta Póllands á föstudag þegar hvítt lak fauk skyndilega á framrúðuna á bílnum hans. Þegar lakið fauk svo af rúðunni blasti líkið við á götunni fyrir framan hann.
Maðurinn taldi í fyrstu að hann hefði ekið á manneskju og var eðli málsins samkvæmt mjög brugðið. Birtu pólskir fjölmiðlar mynd af líkinu þar sem það lá á götunni.
Forsvarsmenn útfararstofunnar báðust afsökunar á atvikinu með yfirlýsingu á laugardag þar sem fram kom að tæknileg bilun hefði orðið til þess að líkið féll úr bílnum.