Fyrsta ríkið til að gera neyslu kannabis og vörslu, upp að ákveðnu marki, refsilausa var Kalifornía en þar hefur fólk, 21 árs og eldri, mátt vera með allt að 8 grömm á sér frá 1996. Er þá miðað við að efnið sé til einkaneyslu.
Eftir að Kalifornía gerði neyslu og vörslu kannabis refsilausa fylgdu önnur ríki í kjölfarið og er kannabisiðnaðurinn orðinn að milljarðaiðnaði og er reiknað með að veltan í honum, það er að segja löglega hluta hans verði 43 milljarðar dollara á þessu ári. US News skýrir frá þessu.
Staðan í Washington D.C. er aðeins öðruvísi en í ríkjunum því höfuðborgin er ekki ríki og því getur þing landsins gripið inn í og komið í veg fyrir lagafrumvörp sem borgarstjórinn samþykkir. Það gerði þingið og því er enn ólöglegt að selja kannabis í höfuðborginni en það má vera með kannabis í fórum sínum. En það er ekki bannað að gefa kannabis sem gjöf og þannig er farið í kringum reglurnar. Fólk kaupir til dæmis stuttermabol og fær kannabis með að gjöf.
70% borgarbúa greiddu atkvæði með því að lögleiða kannabis og kannabisneyslu þegar efnt var til atkvæðagreiðslu meðal íbúa Washington D.C. 2014. Margir þingmenn í fulltrúadeildinni reiddust mjög yfir tillögunni um að lögleiða notkun kannabis og hótuðu að siga lögreglunni á borgarstjórann en það fór nú ekki svo að það væri gert.
Sumir segja að það hafi verið framför að gera neysluna refsilausa því áður hafi kannabis verið selt í laumi í skúmaskotum en nú geti fólk gengið inn í verslanir og fengið efnið þar og jafnvel leiðbeiningar um hvernig það á að bera sig að við neysluna svo hún fari ekki úr böndunum.
En aðrir eru þessu ósammála. Til dæmis skrifaði Robert Gebelhoff, ritstjóri skoðanagreina hjá Washington Post, grein í blaðið þar sem hann lýsti kannabisiðnaðinum sem „skrímsli“ og vísaði þar til þess að 16 milljónir Bandaríkjamanna glíma nú við ýmsa fylgikvilla vegna kannabisnotkunar, þar á meðal geðklofa. Hann benti einnig á að mörg börn hafi á síðustu árum orðið háð kannabis.
Ross Douthat, greinarhöfundur í New York Times, gagnrýndi kannabisiðnaðinn einnig nýlega í grein í blaðinu. Hann lýsti því hvernig New York borg, heimaborg hans, sé orðin að stórum spúandi kannabisstað þar sem ekkert eftirlit er með skaðlegum áhrifum efnisins.